Forstjóraskipti hjá Volvo

Þau tíðindi hafa nú gerst að Þjóðverjinn Stefan Jacoby yfirgefur forstjórastólinn hjá Volvo eftir tveggja ára setu. Við tekur einn stjórnarmanna; Håkan Samuelsson. Af fréttatilkynningu frá stjórn Volvo má ráða að Jacoby hafi verið rekinn því að forstjóraskiptin eru orðuð þannig að vinsamlegt samkomulag hafi náðst milli stjórnar og Stefans Jacoby um starfslok hans (amicable agreement eins og það er orðað). Jacoby hefur undanfarið verið í veikindaleyfi eftir hjartaáfall í sl. mánuði.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Kínverjanum Li Shufu stjórnarformanni Volvo og handhafa meirihluta hlutabréfa í Volvo, að Volvo eigi sér mikil vaxtarfæri, sérstaklega þó í Kína. Håkan Samuelsson sé manna líklegastur til að setja þessar vaxtaráætlanir fyrirtækisins á flug. Hann búi yfir mikilli reynslu og leiðtogahæfileikum og hann sé tilbúinn og óðfús að hefjast handa. Li Shufu þakkar Stefan Jacoby fyrir hans mikilvæga innlegg í þesssar nýju áætlanir og tveggja ára starf sem forstjóri eða þann tíma sem Zhejiang Geely Holding í Kína hefur átt Volvo.

Håkan Samuelsson hefur gegnt stjórnunarstörfum í bílaiðnaðinum í 35 ár. Hann var forstjóri vörubílaframleiðandans MAN árin 2005-2009 en frá árinu 2010 hefur hann setið í stjórn Volvo. Þar hefur hann ekki verið fulltrúi neins af eigendum hlutabréfa í fyrirtækinu heldur í krafti þekkingar á bílaiðnaðinum.