Frakkar heiðra Max Mosley forseta FIA

Max Mosley forseti FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga var í gær sleginn til riddara Frönsku heiðursfylkingarinnar. Það var utanríkisráðherra Frakklands sem það gerði við hátíðarathöfn í höll utanríkisráðuneytisins að Quai d’Orsay í Parísarborg. Sá heiðurstitill sem Max Mosley ber nú er Chevalier dans l’Ordre de la Légion d’Honneur. Titilinn hlýtur hann fyrir störf að umferðaröryggismálum og að málefnum mótorsports í heiminum. Viðstaddir athöfnina í gærkvöldi voru m.a. fjölskylda Max Mosley, vinir og samstarfsfólk. Max Mosley er án efa áhrifamesti baráttumaður fyrir auknu umferðaröryggi sem uppi hefur verið. Hann átti á sínum tíma frumkvæði að stofnun EuroNCAP stofnunarinnar sem hefur undanfarin ár árekstursprófað nýja bíla. Starfsemi stofnunarinnar hefur gjörbreytt viðhorfi almennings og bifreiðaframleiðenda í heiminum til þess hversu öryggi bíla er mikilvægt. Max Mosley átti einnig frumkvæði að stofnun EuroRAP sem vinnur að umbótum í vegamálum í þeim tilgangi að gera vegina öruggari fyrir vegfarendur. Hann hefur verið í nánu og reglulegu sambandi við FÍB um umferðaröryggismál og kom til Íslands á vegum félagsins í nóvember árið 2004 og ávarpaði þá Umferðarþing. Max Mosley á stóran þátt í því að á vegum FÍB er EuroRAP starf hafið á Íslandi.