Framkoma ökumanna gagnvart þeim sem fara að reglum- oft fyrir neðan allar hellur

The image “http://www.fib.is/myndir/SindriSnaer.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sindri Snær Jensson.
Á málþingi Umferðarstofu um unga ökumenn sem haldið var í vikunni kom fram að slysum og óhöppum í umferðinni þar sem ungir ökumenn sem nýlega hafa tekið ökupróf koma við sögu hefur á örfáum árum fækkað um tæpan fjórðung. Þessi fækkun er nánast öll hjá drengjunum. Stúlkurnar sem áður voru drengjunum miklu fremri, hafa staðið í stað.
Þessi viðsnúningur hefur orðið eftir að til sögu hefur komið virk ökuferilsskrá
og refsipunktakerfi. Auk þess hefur verið innleitt nýtt fyrirkomulag við útgáfu varanlegra ökuréttinda eftir að eins árs (eða tveggja ára) gildistíma frum-ökuskírteinis lýkur. Það felst í meginatriðum í því að áður en varanleg ökuréttindi eru gefin út, þarf bráðabirgðaskírteinishafinn að fara í gegn um akstursmat og standast það. Ef hann hefur enga refsipunkta fengið í ökuferilsskrá sína á reynsluárinu getur hann farið í akstursmatið. Hafi hann fengið refsipunkta framlengist reynslutíminn um eitt ár.
Þá töldu þeir sem til máls tóku á þinginu að æfingaakstursheimild ökunema með aðstandendum hefði leitt til þess að ungir ökumenn fá margir hverjir í það minnsta, betri akstursþjálfun en áður. Allt þetta samanlagt hafi orðið til þeirra framfara sem orðið hafa. Allir sem til málst tóku lýstu eftir æfingasvæði þar sem hægt yrði að kenna og æfa akstur við aðstæður eins og hálku og æfa viðbrögð við hverskonar vanda sem upp getur komið í akstri og ekki er hægt að æfa úti í umferðinni.
The image “http://www.fib.is/myndir/Svanberg.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Svanberg Sigurgeirsson.
Fram kom í máli Svanbergs Sigurgeirssonar umsjónarmanns ökuprófa hjá Frumherja að hegðun annarra ökumanna gagnvart ökunemum og sérstaklega þó próftökum væri oft fyrir neðan allar hellur. Ökupróftakinn verði að aka út í hörgul samkvæmt reglum og virða hámarkshraðamörk út í æsar. Það þýði að hann verður að aka hægar en umferðarflæðið er, sem pirri marga ökumenn. Þeir sýni pirring sinn með ýmsu látbragði, merkjagjöf, flauti, þeir ryðjist fram úr bíl próftakans og snögghemli fyrir framan hann, skammist og öskri þegar ökuneminn stansar við stöðvunarskyldumerki og þar fram eftir götunum.
The image “http://www.fib.is/myndir/Gudbrandur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Guðbrandur Bogason.
Guðbrandur Bogason formaður Ökukennarafélags Íslands gerði þetta sama að umtalsefni og sagði að verstu umferðarruddanna mætti  helst finna meðal karlmanna á aldrinum 30-50 ára og væru þeir gjarnan þeim mun verri sem þeir ækju um á stærri og dýrari jeppum.
Sindri Snær Jónsson lýsti reynslu sinni sem ungs ökumanns. Hann sagði m.a. að ungir menn teldu sig flestir góða ökumenn og gleymdu því oft að reynslan er öflugur kennari og teldu sig ráða við hvað sem væri í akstrinum, sem því miður reyndist ekki alltaf raunin. Hann sagði að umferðarlögregla mætti gjarnan vera sýnilegri á götum og vegum til að veita með því umferðinni aðhald.