Framkvæmdastjórn ESB rannsakar mögulegt samráð BMW, Benz og VW

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað þann 18. september sl. að hefja ítarlega rannsókn á því  hvort BMW, Daimler (Mercedes Benz) og VW (Volkswagen, Audi, Porsche) hefðu átt í samráði, sem bryti í bága við auðhringareglugerð ESB, til að koma í veg fyrir samkeppni um þróun og innleiðingu á tæknilausnum til að hreinsa útblástursmengun frá bensín- og dísilbílum. Tilkynningin kemur nákvæmlega þremur árum eftir að dísilhneyksli Volkswagen – oft kallað Dieselgate – komst í hámæli. 

Þessi nýja rannsókn framkvæmdastjórnar ESB beinist sérstaklega að því hvort fyrirtækin hafi átt með sér samráð um að halda niðri tækniþróun og úreldingu mengunarvarnakerfa í bílum.  Þarna er m.a. um að ræða sértæk hvarfakerfi (SCR) sem ætlað er að draga úr skaðlegri losun köfnunarefnisoxíða frá dísilbílum og "Otto" agnasíur ("OPF") sem draga úr skaðlegri losun sótagna frá bensínbílum. 

Fáni Evrópusambandsins

Farið var af stað með þessa rannsókn í kjölfar húsleitar fyrir ári síðan hjá BMW, Daimler, Volkswagern og Audi í Þýskalandi.  Rannsóknin er hluti af frumgreiningu framkvæmdastjórnarinnar á hugsanlegu samráði á milli bílaframleiðenda varðandi þróun tæknibúnaðar. 

Framkvæmdastjórnin hefur einnig upplýst að fyrirtækin sem nú eru til rannsóknar hefðu einnig fundað um fleiri samkeppnisatriði, svo sem almennar kröfur um gæði bílavarahluta og samræmingu gæðaprófunaraðferða.  Fyrirtækin hefðu einnig skipst á tæknilegum gögnum um eigin bíla sem eru á markaði. Fram kemur í yfirlýsingu framkvæmdastjórnar ESB að á þessu stigi séu ekki nægilega sterkar vísbendingar um það hvort þessir fundir fyrirtækjanna hafi fallið undir samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja á markaði.