Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng ganga framar vonum

,,Vinna við Dýrafjarðargöng gengur vel og samkvæmt áætlun. Við erum búnir að sprengja Arnarfjarðarmegin og höfum flutt okkur yfir í Dýrafjörð. Byrjaðir að grafa inn í fjallið og komnir rúmlega 140 metra þar inn. Þar eigum við eftir að grafa um 1500 metra og við áætlum að ljúka því í lok apríl í vor. Stefnt er síðan að því að opna göngin 20. apríl 2020. Það má alveg segja það að heilt yfir framkvæmdir hafa gengið framar vonum,“ segir Guðmundur Ólafsson, verkefnastjóri hjá Suðurverk.

Að sögn Guðmundar er tæpt ár er síðan fyrsta sprengja Dýrafjarðarganga var sprengd. Byrjað var að grafa sex vikum á eftir áætlun en nú er búið að vinna upp þá seinkun. Að meðaltali hafa verið grafnir 70,5 metrar á viku og 300 metrar á mánuði sem er betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í síðustu viku voru grafnir 68,2 m í göngunum Dýrafjarðarmegin. Lengd ganganna í Dýrafirði í lok vikunnar var 102,6 m sem er 6,2% af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 70,3% af göngunum.

Í upphafi vikunnar kom set niður úr loftinu sem var aðeins til vandræða og voru teknar tvær stuttar færur, þ.e. 3 m í stað 5 m, og þurfti að nota netamottur til að styrkja loftið ásamt bergboltum og sprautusteypu. Þegar setið var komið neðar í sniðinu voru aðstæður til graftar góðar og tókst meðal annars að ná tímanum milli sprenginga undir 8 klukkustundir. Efnið úr göngunum hefur verið notað til að stækka plan við steypustöðina.

Í göngunum Arnarfjarðarmegin var haldið áfram með styrkingar í hægri vegg ganganna. Í lok vikunnar var búið að setja bergbolta á tæplega 1.500 m kafla og sprautusteypa tæplega 800 m langan kafla í heildina.

Engin vegavinna var í gangi í Arnarfirði en í Dýrafirði var lítillega unnið í námum og í veginum. Klárað var að slá upp fyrir nyrðri stöplinum í Mjólkárbrúnni og verður steypt þegar veður leyfir.