Framkvæmdum á Reykjanesbraut miðar vel áfram

Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar (41) á 3,2 km kafla frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi ganga vel. Þessa dagana er verið að klára að malbika síðasta kafla endurbættrar norðurakreinar milli Strandgötu og Kaldárselsvegar. Þar með má segja að nánast allri malbikunarvinnu sé lokið.

Uppsteypu undirganga við Strandgötubrú er lokið og unnið er að frágangi. Þá hefur ný göngubrú við Þorlákstún verið tekin í notkun.

Ný göngubrú við Ásland verður hífð á stöpla sína á morgun, fimmtudaginn 27. ágúst. Framkvæmdirnar fara fram milli klukkan 9.30 og 13 og verður Reykjanesbraut lokað milli Kaldárselsgatnamóta og Strandgötubrúar á meðan. Hjáleið verður um Ásbraut en ljóst er að búast má við nokkrum töfum á umferð meðan á lokuninni stendur.

Framkvæmdirnar á Reykjanesbrautinni fara fram í mikilli nálægð við þunga umferð, íbúabyggð er mikil í næsta nágrenni og þar eru einnig skólar og verslanir. Því er lögð mikil áhersla á öll öryggismál. Áætluð verklok eru í nóvember.