Framleiðsla á átta gerðum Toyota stöðvuð

Toyota í Bandaríkjunum hefur innkallað 6,5 milljón bíla, bæði nýja og notaða vegna hugsanlegs galla sem veldur því að bensíngjöfin stendur á sér og gæti átt til að festast, jafnvel í botni, með háskalegum afleiðingum. Í kjölfar frétta í bandarískum fjölmiðlum af slíkum slysum hefur bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA rannsakað þesskonar slys og hvort bílar frá Toyota hafi komið við sögu í óeðlilega stórum hluta þeirra.

Í nóvembermánuði sl. innkallaði Toyota 4,2 milljónir bíla til að rannsaka og lagfæra umræddan galla í bensíngjöfinni. Í síðustu viku voru svo innkallaðir 2,3 milljón bílar til viðbótar vegna sama vandamáls. Og til frekara öryggis hefur Toyota í Bandaríkjunum nú stöðvað bæði sölu og framleiðslu bíla af átta gerðum meðan gengið er úr skugga um hvort gallinn sé til staðar og hvort lagfæringar sé þörf.

Þær átta bílagerðir sem um ræðir eru þessar:

* 2009-2010 Rav4

* 2009-2010 Corolla (ekki sami bíll og í Evrópu)

* 2009-2010 Matrix

* 2005-2010 Avalon

* 2007-2010 Camry (ákveðnar undirgerðir)

* 2010 Highlander

* 2007-2010 Tundra

* 2008-2010 Sequoia

 Framleiðslustöðvunin hefur þá aukaverkun í för með sér að þann 1. febrúar nk. verður að stöðva framleiðslu á Lexus bílum í fjórum verksmiðjum Toyota í Bandaríkjunum og Kanada enda þótt þessi galli hafi aldrei fundist í hvorki Lexus né Scion bílum.