Framleiðsla VW Phaeton hættir

Frans páfi sest inn í VW Phaetonbíl Vatikansins.
Frans páfi sest inn í VW Phaetonbíl Vatikansins.

Síðasti Volkswagen Phaeton lúxusbíllinn rennur af færibandinu í Dresden  verksmiðju VW um næstu mánaðamót. Þá verður framleiðslunni hætt endanlega og ekkert kemur í staðinn. Phaeton ævintýrið hefur reynst Volkswagen mjög dýrkeypt því að bíllinn seldist afleitlega frá fyrsta degi sem var í júníbyrjun 2002. Tímaritið Der Spiegel segir að framleiðslan hafi verið svo vonlaus að ekki einu sinni sjálfur páfinn hefði getað undið ofan af með því að fá sér VW Phaeton (sem hann gerði).

Phaeton bílarnir voru framleiddir í hinni nýju, sérbyggðu og framúrstefnulegu verksmiðju VW í Dresden. Þar unnu starfsmenn íklæddir hvítum vinnufatnaði á stífbónuðum parkettgólfum og skrúfuðu bílana saman, ýmist Phaeton eða Bentley bíla, og gestir gátu fylgst með störfum þeirra á sérstökum áhorfendasvæðum meðfram „færibandinu.“

Phaeton kom fyrst á markað þann 31. maí 2002. Frumkvæðið að þessum lúxusbíl var frá þáverandi stjórnarformanni; Ferdinant Piëch og barnabarni Ferdinants Porsche sem hannaði upphaflegu Volkswagen bjölluna. Piëch sagði þá að Phaeton markaði upphaf nýrra og enn betri tíma hjá Volkswagen. Hann reyndist ekki sannspár.

Phaeton átti að keppa á markaði við ofurlúxusbíla eins og Mercedes S línuna, BMW 7 og Audi A8 en eftir á að hyggja var það vonlaust frá upphafi. S-Benzinn, BMW 7 línan og Audi A8 eru í flestra hugum lúxusmerki meðan Volkswagen er (eins og nafnið segir raunar) alþýðubíll, bíll fólksins. Sjálft nafnið og vörumerkið hefur þannig enga tengingu við lúxus í hugum bílakaupenda, enda seldist bíllinn nánast ekki neitt í vestrænum ríkjum. Það fannst helst markaður fyrir hann í Austurlöndum nær en þó aðallega fjær (Kína).