Framleiðslu á Lancer verður hætt síðar á árinu

Það verða kaflaskipti í sögu Mitsubishi síðar á þessu ári þegar framleiðslu á Lancer bíl fyrirtækisins verður hætt. Saga framleiðslu þessa bíls spannar 44 ára sögu en nú verður kraftur settur í framleiðslu á jepplingum.

Þess má geta að fyrsti Lancer bíll bílaverksmiðjurnar var smíðaður 1973 en alls voru smíðuð um sjö milljón eintök af þessari gerð.

Þessara tímamóta verður minnst með ýmsum hætti hjá Mitsubishi og hefur verið ákveðið að bjóða síðustu gerð hans í viðhafnarútgáfu. Verður meira lagt í hann, bæði útlitslega og eins að innan.

Stefnt er að því að bíllinn verði viðráðanlegur í kaupum og býðst hann í Bandaríkjunum á rétt yfir tvær milljónir króna.