Framlög aukin og framkvæmdum flýtt í samgönguáætlun

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lagði fram í vikunni á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur. Einnig lagði ráðherra fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun (aðgerðaáætlun) fyrir tímabilið 2020-2024.

Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. „Stærstu einstöku framkvæmdir sem færast nær okkur eru jarðgangagerð á Austurlandi, stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu og ýmsar stórar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Samgönguáætlunin er lögð fram með hliðsjón af nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 en í henni var fjármagn til samgöngumála aukið verulega. Í endurskoðuninni er auk þess tekið tillit til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, niðurstaðna starfshóps um fjármögnun samgönguframkvæmda, nýrrar stefnu ríkisins í flugmálum, nýrrar stefnu ríkisins í almenningssamgöngum milli byggða, niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi og niðurstöðu verkefnishóps um lagningu Sundabrautar. 

Tillagan var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og barst fjöldi ábendinga. Sumar höfðu áhrif á endanlega tillögu en aðrar nýtast í næstu endurskoðun samgöngu- og fjármálaáætlana. Ákveðið var að færa framar framkvæmdir við bæði Vatnsnesveg og Strandaveg um Veiðileysuháls miðað við fyrri tillögur.

Framlög aukin og framkvæmdum flýtt
Samkvæmt tillögunni verða ríkisframlög til fimmtán ára samgönguáætlunar alls um 637 milljarðar króna. Lagt er til að stærstum hluta þess fjármagns verði varið til vegamála, þ.e. um 563 milljörðum. „Samkvæmt fjármálaáætlun eru framlög til vegamála árin 2020-2024 aukin um 4 milljarða hvert ár. Framlög í þjónustu og viðhald á vegakerfinu eru aukin miðað við gildandi áætlun. Þjónusta um 640 milljónir á ári og viðhald um 500 milljónir á ári. Samtals eru því framlög til viðhalds og þjónustu að aukast um rúma 15 milljarða sé litið til 15 ára tímabilsins alls.
Samvinnuverkefni
Ráðherra kynnti einnig aukna áherslu í samgönguáætlun á að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða. Slíkar leiðir eru algengar á Norðurlöndunum, sérstaklega í stærri framkvæmdum. Hvalfjarðargöngin voru fjármögnuð með slíkri leið. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP). „Helstu kostir samvinnuleiðar er að fjármögnun er utan fjárlaga og veitir því möguleika til frekari flýtingar þjóðhagslega arðbærra verkefna. Þar að auki veitir þessi aðferð sterkan hvata til nýsköpunar sem getur hugsanlega leitt til lægri kostnaðar í hönnun, framkvæmd og rekstri,“ sagði ráðherra.