Framtíð dísilbílsins ógnað

Þróun dísilfólksbíla í Evrópu hefur verið mjög hagstæð neytendum undanfarin ár, líka hér á landi, sérstaklega eftir að gamla þungaskattskerfið var lagt af. Það kerfi fól í sér mismunun og útilokaði í raun sparneytna dísilfólksbíla meðan það hyglaði allra stærstu bílunum.

Helstu kostir dísilfólksbílanna umfram sambærilega bensínbíla eru allt að 30 prósent minni eldsneytiseyðsla og 20 prósent minni CO2 útblástur. En nú eru blikur á lofti því að Evrópusambandið boðar nýjan skatt sem gæti gert kosti dísilbílanna að engu fyrir neytendur á aðeins tveimur árum. En jafnframt mun landflutningakostnaður líka hækka umtalsvert. 

Það er skattamálakommissarinn Algirdas Semeta sem lagt hefur fram umrædda tillögu. Í henni felst að eldsneyti skuli skattlagt út frá orkuinnihaldi þess. Og þar sem orkuinnihald dísilolíunnar er talsvert hærra en bensíns verður skattlagningin á olíuna verulega, eða um 17 prósent hærri en hún er nú.

Fyrsta Evrópusambandsríkið til að mótmæla þessum fyrirætlunum var Þýskaland og kanslarinn Angela Merkel sem heitir liðsinni sínu til að stöðva frumvarpið. Þýska tímaritið der Spiegel segir að lítraverð dísilolíunnar frá afgreiðsludælu muni hækka um 46 ísl. krónur verði frumvarpið að lögum. Það muni snerta almenning mjög illa þar sem fullur helmingur fólksbifreiða í Þýskalandi eru dísilbílar. Algirdas Semeta mótmælir því svosem ekki en segir þetta nauðsynlega aðgerð til að fá almenning og fyrirtæki til að draga úr CO2 útblæstri. Á næsta áratugi sé markmiðið að draga úr CO2 útblæstri um einn fimmta. Núverandi skattakerfi geri þær fyrirætlanir að engu því það hygli stærstu og eyðslufrekustu farartækjunum og hæstu skattarnir leggist á lífrænt etanól sem er eitt hið hreinasta sem fyrirfinnst.

En ekki er víst að Semeta takist að koma þessari tillögu sinni í gegn um Evrópuráðið sem tekur tillöguna til afgreiðslu í júní nk. Mótmælum er tekið að rigna inn, bæði frá Evrópusambandsríkjum og ýmsum samtökum sem dregur úr líkum á samþykkt tillögunnar og til að skattabreytingar verði að veruleika þurfa öll ríki Evrópusambandsins að samþykkija þær samhljóða. Auk Þýskalands hafa nú þegar Bretland, Írland. Luxemburg og Pólland lýst andstöðu við tillöguna. Þá hafa samtök evrópskra bílaframleiðenda;  ACEA einnig mótmælt henni.