Framtíðareldsneyti á bílana

Audi hyggst greinilega ekki ætla að láta olíufélög ein um það að þróa framtíðareldsneyti fyrir brunahreyfla sem getur tekið við af bensíni og dísilolíu þegar jarðolía gengur til þurrðar. Bílaframleiðandinn er kominn í samstarf við nokkra aðila um eldsneytisgerð, bæði í Þýskalandi og í Bandaríkjunum.

Audi og samstarfsaðilinn Climewoks gangsettu nýlega rannsókna- og framleiðslustöð í Dresden í Þýskalandi. Þar á að þróa kolefnisjafnað fljótandi eldsneyti. Meginþættirnir í framleiðslunni verða vatn og raforka framleidd á sjálfbæran hátt. Framleiðslutækin í tilraunastöðinni eru sögð geta framleitt um 160 lítra af hráolíu á dag og um 80 prósent hennar nýtist til að búa til gervi-dísilolíu sem sé mjög auðtendranleg. Efnasamsetning þessarar gervi-dísilolíu sé þannig að hún blandist mjög auðveldlega við venjulega dísilolíu sem unnin er úr jarðolíu. Audi tekur ennfremur þátt í fleiri verkefnum sem lúta að því framleiða hreinna og mengunarminna eldsneyti en nú er algengast. Í bænum Werlte í Saxlandi er Audi þátttakandi í gasverksmiðju sem framleiðir metangas sem kalla mætti gervimetan (syntetisk metan). Þetta metangas geta eigendur gasknúna bílsins Audi A3 g-tron afgreitt sig sjálfa með á sérstökum gasstöðvum í Þýskalandi.

Í N. Ameríku á Audi í samstarfi við bandaríska líftæknifyrirtækið Joule í Massachusetts við að framleiða lífræna gervi-dísilolíu og e-etanól sem leyst getur bensín af hólmi. Dísilolían kallast Audi e-diesel. Beitt er lífrænum aðferðum við þessa framleiðslu. Þær felast í því að rækta sérstakar örverur og láta þær framleiða hráolíuna eða sjálft hráefnið í eldsneytið. Dísilolían er sögð laus við CO2 mengun því að það kolefni (CO2) sem myndast við bruna eldsneytisins er jafngilt því CO2 magni sem örverurnar þrifust á meðan þær sköpuðu hráolíuna og skiluðu um leið frá sér súrefni. Bílar sem koma til með að brenna þessari olíu og e-etanóli verða þannig nokkurnveginn jafn „hreinir“ og rafbílar sem nýta endurnýjanlega orku.

Það eina sem þarf til að framleiða Audi e-dísil og e-etanól eru örverurnar umræddu, vatn, CO2 og sólskin. Örverurnar eru einfrumungar sem hver um sig eru þrír þúsundustu úr millimetra í þvermál. Þær þurfa ekki hreint drykkjarvatn til að þrífast. Þeim nægir alveg eins og ekkert síður frárennslisvatn eða þessvegna saltvatn. Þær vaxa og fjölga sér með ljóstillífun svipað og plöntur – nota sólarljós og CO2 og anda frá sér súrefni sem þar með er einskonar aukaafurð. Líffræðingunum hjá Joule hefur tekist að breyta ljóstillífun þessara örvera þannig að þær framleiða líka á lífsferli sínum kolefnissambönd sem eru eru mikilvæg í dísilolíu. Einnig framleiða örverurnar etanól beint úr CO2. Audi e-dísilolía þykir vera sérstaklega hrein og algerlega laus við brennisstein og margskonar aukaefni sem fyrirfinnast í dísilolíu sem gerð er úr jarðolíu. Sáralítil mengun verður því af bruna hennar í dísilvélum.

Framleiðslukostnaður er enn sem komið er hærri en á hefðbundinni dísilolíu. En talsmenn Audi og hinna bandarísku samstarfsaðila telja að þess sé ekki langt að bíða að framleiðslan verði samkeppnishæf  í verði innan fárra ára við jarðolíuna.