Framtíðarsjevrólettinn?

General Motors hefur lagt líf og sál í nýja rafbílinn Chevrolet Volt og leggur mikið undir í því að verða að eigin sögn fyrstir með rafbíl með ljósavél sem getur hlaðið geymana jafnharðan og ekið er. Fjöldaframleiðsla á Chevrolet Volt á að hefjast í desember 2010 og fyrstu kaupendurnir eiga að fá bíla sína afhenta í ársbyrjun 2011.

Bíllinn er nú í stanslausum tilraunaakstri hingað og þangað um veröldina og meðal þeirra sem reynsluekið hafa bílnum eru sænskir blaðamenn og bera þeir honum vel sögu, segja hann mjög kraftmikinn og einstaklega hljóðlátan.

Chevrolet Volt var sýndur sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í Detroit árið 2007. Þá strax varð ljóst að verulegur undirbúningur hafði átt sér stað því þótt bíllinn væri kynntur sem hugmyndarbíll var undirvagn og yfirbygging hvorttveggja tilbúið til að fara í fjöldaframleiðslu. 

 

http://www.fib.is/myndir/Volt.500.jpg
Chevrolet Volt.

 

En til að halda tímaáætlanir hafa hundruð, jafnvel þúsundir verk- og tæknifræðinga GM unnið dag og nótt að bílnum því að líf GM liggur nánast við að koma fram með bíl sem stenst Toyota Prius snúning og helst gott betur. Toyota hefur nefnilega ekki enn boðið Prius eða aðra tvinnbíla sína sem tengiltvinnbíla sem hægt er að stinga í samband við heimilisstrauminn og hlaða upp yfir nóttina og GM vill verða á undan með það. Hjá GM leggja menn því áherslu á að Chevrolet Volt sé ekki tvinnbíll heldur rafbíll með eigin rafstöð um borð.

„Ef okkur tekst að halda tímaáætlun okkar og byrja fjöldaframleiðslu í lok næsta árs er GM aftur kominn í fremstu röð bílaframleiðenda í stað þess að haltra þetta einu eða tveimur árum á eftir Japönunum og Þjóðverjunum, sagði hinn litríki bílamaður og framleiðslustjóri GM; Bob Lutz nýlega. Hann sagði aðspurður að enda þótt engir töfrar lægju að baki þessum nýja bíl og að flestir framleiðendur stefndu nú að því að nýta svipaða tækni í náinni framtíð, þá skipti það gríðarlega miklu máli fyrir GM að vera fyrstir með hana.

Chevrolet Volt verður framleiddur fyrir Evrópumarkað hjá Opel í Þýskalandi og seldur undir nafninu Opel Ampera. Í Ameríku verður rafstöðin í bílnum knúin 1,4-lítra bensínvél sem getur gengið jafnt á bensíni og lífrænu etanóli (E85). Rafstöðin fer sjálfvirkt í gang þegar orkustaðan á geymunum fer niður í 30% af fullri hleðslu. Hjá Opel verður það að öllum líkindum dísilvél sem knýr rafstöðina.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það að hanna umhverfi ökumanns þannig að það, sem og aksturinn allur verði sem allra líkast því sem er í venjulegum sjálfskiptum bíl. Þetta er gert til þess að fæla ekki kaupendur hefðbundinna bíla frá rafbílum.

Gott dæmi um þetta er „gírvalstöngin“ sem lítur út eins og í sjálfskiptum bíl og er meira að segja með merkingunum Park, Reverse, Neutral, Drive og Low. Þegar sett er í Low, kemur mjög sterk „mótorhemlun“  sem í rauninni er endurnýting hreyfiorkunnar sem aftur er breytt í rafmagn sem leitt er inn á geymana.

Sænsku blaðamönnunum þótti reynsluakstursbíllinn ágætlega öflugur. Rafmótorinn er 163 hestöfl með 370 Newtonmetra vinnslu. Hann var átta sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraði bílsins var takmarkaður við 160 km á klst.

Sala á Chevrolet Volt hefst í Bandaríkjunum í janúar 2011. Verðið er óvíst ennþá, en að sögn talsmanna GM þar sem reynsluaksturinn fór fram, mun það miðast að einhverju leyti við verðið á Toyota Prius sem í dag kostar þar vestra 21.000 til 27.000 dollara.

Chevrolet Volt er fimm manna og fimm dyra. Hann er 450 sem að lengd, 180 á breidd 143 á hæð. Lengd milli öxla er 268 sm og þyngdin á akstursklárum bílnum er um 1.600 kíló. Rafmótorinn er framí húddi og drífur framhjólin og í húddinu er einnig rafstöðin.