Franska öryggislögreglan fær tryllitæki

Sú öryggislögregla sem í Frakklandi kallast Gendarmerie Nationale og tengist hernum þótt hún hafi líka víðar heimildir til að skipta sér af almennum borgurum, er þessa dagana að fá 70 Renault Mégane RS bíla til að gæta laga og reglna á frönsku hraðbrautunum.

 Á ýmsu hefur gengið með bílamál þessarar lögreglu. Lengi vel voru þeir á frönskum Renault og Citroen bílum en þegar aðrar erlendar tegundir bíla urðu sífellt aflmeiri og hraðskreiðari meðan þeir frönsku stóðu í stað urðu löggumenn að brjóta odd af oflæti sínu og fara að aka um á BMW. En nú hefur Renault frískað vel upp á Mégane og er nýi RS bíllinn orðinn 250 hestafla og ekki nema 6,1 sek. í hundraðið svo að óhætt er að fara að skipta yfir í þjóðlegt og franskt aftur.

Í fréttatilkynningu frá Gendarmerie Nationale segir að Renault RS hafi orðið fyrir valinu nú, því að bíllinn sé gott verkfæri til að nota í baráttunni gegn glæpum sem sérstakir eru fyrir hraðbrautaumhverfið. Þessum sérstöku glæpum tengist oft ógurlegur hraðakstur, t.d. í sambandi við flóttatilraunir, í bílþjófnaðarmálum, líkamsárásum og eiturlyfjaviðskiptum.

RS-útgáfan af Mégane fæst nú með tveggja lítra 250 hestafla túrbínuvél og er aðeins 6,1 sekúndu í hundraðið úr kyrrstöðu, sem eru mikilvægir eiginleikar við þessháttar löggæslustörf sem vinna þarf á hraðbrautunum, að því segir í frétt lögreglunnar.