Frí Google leiðsögn í bílana

Leitarvélin Google hefur fært út kvíarnar í risaskrefum á fáum árum. Nú býður Google upp á nettengda GPS leiðsögn í gegn um venjulega snjallsíma. Fólk hleður niður kortum í símann án endurgjalds og eftir það virkar farsíminn eins og hvert annað GPS leiðsögutæki. Sjá kynningu frá Google.

http://www.fib.is/myndir/Google2.jpg

Helstu framleiðendur GPS leiðsögutækja í bíla, eins og Garmin, Tomtom, Navigon o.fl. hafa þar með fengið harða samkeppni frá aðila sem ekki rukkar fyrir kortauppfærslur og eigendur snjallsíma geta meira að segja losnað líka við það að fjárfesta í GPS tækjum sem kosta frá ca. 20 þús kr. og upp úr.

http://www.fib.is/myndir/Google3.jpg

Google hefur um hríð boðið upp á landakort, vegakort og vega- og götumyndir á Netinu með hugbúnaði sem kallast Street View. Fyrst komu þessi kort og myndir, síðan tók Google að bjóða upp á GPS-hugbúnað fyrir snjallsíma sem kallast Google Navigation. Búnaðurinn eins og hann er orðinn í dag, gerir mögulegt að láta símann leita uppi leiðina að tilteknum stað og sýna hana sem götumynd, vegakort, sem loftmynd eða blöndu korts og loftmyndar ásamt raddleiðsögn, hvort heldur sem er í bílnum eða sé maður fótgangandi. -Semsagt, allt það sama sem hefðbundin GPS tæki gera og gott betur.