Fróðleiksmoli um hreinsun gatna


Nokkuð hefur verið rætt um hreinsanir gatna að undanförnu. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur m.a. gert greiningu á því hvert fyrirkomulag gatnahreinsana sé á höfuðborgarsvæðinu en þar hefur nokkuð verið kvartað undan tíðni og gæðum. Í því samhengi hefur verið rætt um skert loftgæði.

Sveitafélögin hafa nýtt góða veðrið að undanförn til að hreinsa götur og stíga. Oft hindra ökutæki sem lagt er í íbúagötum og annars staðar fullkomna hreinsun og því bregða sveitafélögin, eða verktakar í þeirra umboði, á það ráð að merkja fyrirhugaða hreinsunarstaði með ábendingum á skiltum um að umráðamenn ökutækja sýni samstöðu um að hindra ekki hreinsun.

FÍB fagnar þessum vinnubrögðum og hrósar sveitafélögunum og hlutaðeigandi umráðamönnum ökutækja fyrir þessa viðleitni til að gera umferðarleiðir akandi, hjólandi og gangandi, hreinar og fínar.

Til fróðleiks má geta þess að í reglugerð um lögreglusamþykktir frá árinu 2007 segir í 15 gr.

,,Þá geta sveitarstjórnir beint þeim fyrirmælum til ökumanna og eigenda ökutækja að þeir leggi ekki ökutækjum á tilteknum svæðum svo unnt sé að framkvæma hvers konar nauðsynlegar viðgerðir eða hreinsanir á götum. Tilmælin skulu tilkynnt með upp­lýsinga­skiltum eða öðrum tryggum hætti. Sé slíkum tilmælunum ekki sinnt getur sveitar­stjórn látið flytja ökutæki á brott án frekari viðvörunar svo viðgerð eða hreinsun geti farið fram. Tilkynna skal eiganda ökutækis og lögreglu um brottflutninginn og hvar má vitja ökutækisins sé það ekki flutt aftur á sama stað eftir að viðgerð eða hreinsun lýkur."

Reglugerðin er af hálfu dómsmálaráðuneytisins hugsuð sem fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitafélaganna en slíkar segja til um fjölmörg atriði sem varða samskipti borgaranna (manasiði) og notkun á sameiginlegum gæðum.

Þetta speglast síðan í  lögreglusamþykkt Reykjavíkur frá árinu 2008:

,,Reykjavíkurborg getur beint þeim fyrirmælum til ökumanna og eigenda ökutækja að þeir leggi ekki ökutækjum á tilteknum svæðum svo unnt sé að framkvæma hvers konar nauðsyn- legar viðgerðir eða hreinsanir á götum. Tilmælin skulu tilkynnt með upplýsingaskiltum eða öðrum tryggum hætti. Sé slíkum tilmælunum ekki sinnt getur Reykjavíkurborg látið flytja ökutæki á brott án frekari viðvörunar svo viðgerð eða hreinsun geti farið fram. Tilkynna skal eiganda ökutækis og lögreglu um brottflutninginn og hvar má vitja ökutækisins sé það ekki flutt aftur á sama stað eftir að viðgerð eða hreinsun lýkur."

Fátítt mun að beitt sé heimildarákvæði sem finna má í lögreglusamþykktum um brottflutning ökutækja sbr. framangreint enda telja yfirvöld ævinlega best að leggja samtal og samvinnu til grundvallar í samskiptum borgaranna og styður FÍB það vinnulag.