Frumvarp um sjálfvirk gjaldhlið og vegtolla á höfuðborgarsvæðinu sett á ís

Á opnum fundi félaga sjálfstæðismanna í Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Árbæ, Selási- Ártúns- og Norðlingaholti sl. þriðjudagskvöld, 1. nóvember, var meðal frummælenda Vilhjálmur Árnason formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Mikil andstaða kom fram á fundinum varðandi fyrirhugaða vegtolla á höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vakti að Vilhjálmur lýsti því yfir á fundinum að fjármálaráðherra muni ekki leggja fram frumvarp um sjálfvirk gjaldhlið og vegtolla á höfuðborgarsvæðinu á þessu þingi. Hér er um stórmerk tíðindi að ræða þvert á fyrri yfirlýsingar.

Til skoðunar og að endanleg útfærsla lægi ekki fyrir á þessu stigi

FÍB sendi fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins um hvað liði frumvarpi til laga um flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu sem til stóð að leggja fram í nóvember. Fulltrúi ráðuneytisins svaraði því til að þetta væri enn til skoðunar og að endanleg útfærsla lægi ekki fyrir á þessu stigi. Fram kom að frumvarp um flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu verði ekki lagt fram í nóvember. ,,Litið er svo á að flýti- og umferðargjöld séu hluti af framtíðartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs vegna umferðar og orkuskipta. Ráðuneytið mun í vinnunni halda FÍB og öðrum hagsmunaaðilum upplýstum um gang mála og fyrirkomulagið þegar það liggur fyrir.“

Samkvæmt þingmálaskrá Alþingis fyrir 153. Löggjafarþingið 2022-2023 stóð til að fjármálaráðherra legði fram frumvarp til laga um flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu núna í nóvember. Frumvarpið á að taka á nýju fyrirkomulagi gjaldtöku í formi flýti- og umferðargjalda á höfuðborgarsvæðinu með gildistöku hinn 1. janúar 2024. Markmið frumvarpsins er að standa straum af stofnframkvæmdum samgöngumannvirkja, fjármögnun og afleiddum kostnaði slíkrar uppbyggingar. Gjöldunum er ætlað að tryggja nauðsynlega fjármögnun um leið og þeim er ætlað að stuðla að því að markmiðum Samgöngusáttmála ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verði náð.

Grunnhugmyndin um flýtigjöldin gerir ráð fyrir vegtollum vegna umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom í viðtali við Davíð Þorláksson framkvæmdastjóra Betri samgangna á RÚV 21. september síðastliðinn að rætt hafi verið um sjálfvirk gjaldhlið við stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu og einnig innan borgarmarka. Davíð sagði koma til álita að hafa hærri gjöld á álagstímum í því skyni að dreifa umferð. Tollurinn á að skila 5-6 milljörðum króna á ári í hreinar tekjur og standa undir helmingi heildarkostnaður vegna uppbyggingar samgönguinnviða og borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu.

FÍB hefur ítrekað mótmælt þessum hugmyndum

FÍB hefur ítrekað mótmælt þessum hugmyndum. Bifreiðaeigendur eru þegar skattpíndir úr hófi fram. FÍB hefur aftur á móti lagt til heildarendurskoðun á innheimtu skatta af bifreiðum og umferð með upptöku kílómetragjalds.