Fulltrúar og ráðamenn hafa brugðist skyldu sinni

Þrengingarnar við Klambratún orsaka umferðateppur og tafir út um allt höfuðborgarsvæðið.
Þrengingarnar við Klambratún orsaka umferðateppur og tafir út um allt höfuðborgarsvæðið.

Ökumenn hafa á undanförnum dögum orðið varir við miklar umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu vegna framkvæmda við stórar umferðaræðar. Það er vel að ráðist hefur verið í að framkvæma og bæta umhverfi samgangna á höfuðborgarsvæðinu og síðast nú í morgun kom fram í viðtali við borgarstjóra á Rás 2 að mikið af malbikunarframkvæmdum hafi setið á hakanum og töluverður halli hafi myndast hvað þær varðar og hann þurfi að bæta upp.

Vegfarendur þekkja að ástand gatna sem lítur að rásum og holum hefur orsakað um leið mikið tjón hjá mörgum bíleigendum. Það var því orðið löngu tímabært að bæta ástand gatnakerfisins en á sama tíma þegar farið er í framkvæmdir sem þessar þá þarf að skipuleggja og gera ráð fyrir flæði umferðar. Þar hefur borgin líkt og Vegagerðin yfir að ráða okkar færustu sérfræðingum á þessu sviði.

Tryggja flæðið með því að hafa tvær þrengri akreinar

Umferðarstjórnun á Miklubraut vegna framkvæmda við mikilvægar samgöngu- og umhverfisbætur við Klambratún hefur brugðist. Verkefnastjórn framkvæmdanna ákvað að loka annarri akreininni úr austri til vesturs. Þessi þrenging hefur haft mjög neikvæð áhrif á umferð. Rýnihópur fór yfir öryggismál fyrirhugaðra framkvæmda og lagði til að leitað yrði allra leiða til að tryggja tvær akreinar í hvora átt á framkvæmdatímanum. Bent var á að mögulegt væri að hafa tvær þrengri akreinar þar sem megin hluti umferðarinnar gæti farið í tveimur rásum. Hámarkshraði lækkaður á framkvæmdasvæðinu enda tryggðu tvær akreinar betra umferðarflæði og öryggi um þessa megin stofnæð Reykjavíkur.

Þrengingarnar við Klambratún orsaka umferðateppur og tafir út um allt höfuðborgarsvæðið. Vegna ástandsins á þessu umrædda svæði þá hreinsast gatnamót ekki sem skildi annars staðar á Miklubraut og Hringbraut sem aftur veldur einnig töfum á norður-suður aksturslínum. Stór hluti vegfarenda verður fyrir verulegum óþægindum.

Svo virðist sem ekki hafi verið gert ráð fyrir því að tryggja forgang viðbragðsaðila lögreglu, sjúkraliðs og slökkviliðs á framkvæmdasvæðinu og víðar. Þarna skammt frá er þjóðarsjúkrahúsið, Landspítali, sem nánast er hafður í gíslingu á háannatímum vegna þessara umferðaþrenginga. Sú sjálfsagða krafa er gerð til þeirra sem reka umferðarmannvirkin í borginni að allt verklag sé meðvitað með öryggi og þægindi borgaranna í fyrirrúmi. Ekki þýðir að benda á aðra samgöngumáta, öll umferð teppist. Það er verið að búa til óþarfa vandamál, óþægindi, tafir og mengun sem koma má í veg fyrir með aukinni fyrirhyggju og skipulagi.

Á sama tíma og framkvæmdir hefjast á Miklubraut á móts við Klambratún kemur tilkynning þess efnis að til standi að loka Geirsgötu í að minnsta hálfan mánuð. Í kjölfar neikvæðrar umræðu hafa embættismenn Reykjavíkurborgar heldur dregið í land og sagt að ekki verði um algera lokun að ræða. Reykjavik er byggð á nesi eða tanga. Stærsta útgerðar- og olíuhöfn landsins og annað sveitarfélag, Seltjarnarnes, er vestast á þessu nesi. Tvær megin umferðaræðar flytja umferðina frá vestri til austurs og öfugt. Annars vegar Hringbraut, Miklabraut sem er megin tengibrautin og hins vegar Mýrargata, Geirsgata, Sæbraut. Það þarf að koma afurðum, olíu og varningi frá hafnarsvæðinu. Fólki, vistum, kosti og varningi til og frá stærstu vinnustöðum og vinsælustu ferðamannstöðum landsins. Sama á við um íbúana í vestri sem þurfa heim og að heiman.

Yfirvöld taki sig saman í andlitinu

Skipulag og verklag umferðarstjórnunar í tengslum við núvarandi framkvæmdir í borgarlandinu hefur brugðist. Vonandi sjá aðilar að sér og bæta ástandið sem fyrst. Fara þarf að ráðum sérfræðinganna sem unnu öryggisrýnina og tryggja tvöföldun akstursleiða við Klambratún á framkvæmdatímanum. Vafalítið gætu aðrar aðgerðir einnig hjálpað til.

Í gær kom tilkynning um að hætt hefði verið við þau áform að loka Geirsgötunni alfarið í nokkrar vikur eins og til stóð. Þarna brást borgin eðlilega við réttmætri gagnrýni og er það vel. FÍB hvetur ráðamenn borgarinnar og Vegagerðarinnar til að fara yfir alla verkferla og umferðarskipulag í góðu samráði við viðbragðsaðila til að draga sem mest úr óþægindum borgaranna og um leið tryggja betra öryggi. FÍB hvetur yfirvöld umferðarmála til að auka samhæfingu og samstarf og bæta það sem bæta þarf.