Fundur um þrjár Vaðlaheiðarskýrslur

Höfundar þriggja skýrslna sem gerðar hafa verið um væntanleg Vaðlaheiðargöng  sátu í morgun fyrir svörum nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis. Fundurinn var opinn fjölmiðlum en var ekki tekinn upp né heldur sendur beint út.

Tíðindamaður FÍB var viðstaddur fundinn og hans mat er það að höfundar skýrslnanna þriggja hafi vissulega varpað skýrara ljósi á ýmislegt sem áður var óljóst. En svo virtist sem allir geri þeir sér grein fyrir því að þær meginforsendur og útreikningar sem gangamenn hafa unnið eftir og gera enn, ganga tæpast upp.  Það er hins vegar misjafnt hvernig menn hafa unnið út frá þessu.

Tvær skýrslnanna voru unnar fyrir tvo þingmenn og ráðherra úr Norðurkjördæmi eystra og mikla áhugamenn um þessi göng, þá Kristján L. Möller þáverandi samgönguráðherra og núverandi stjórnarmann í Vaðlaheiðargöngum hf og Steingrím J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra. Þetta er annarsvegar svonefnd IFS-skýrsla sem unnin var fyrir Steingrím J. Hins vegar er það ný enduruppgötvuð skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ frá 2010 sem gerð var fyrir Kristján meðan hann sem samgönguráðherra og kjördæmisþingmaður var enn í viðræðum við lífeyrissjóðina um að þeir legðu fé til framkvæmdanna. Höfundar þeirrar skýrslu og sérstaklega IFS skýrslunnar lögðu á mikla áherslu að þeim hefði fyrst og fremst verið falið að fara í saumana á forsendum og útreikningum gangamanna og niðurstaðan væri sú að þær gætu hugsanlega gengið upp með ýmsum áherslubreytingum eins og auknu hlutafé Vaðlaheiðarganga hf og ákveðnum efnahagslegum forsendum lítt eða ekki breyttum

Skýrsla Pálma Kristinssonar verkfræðings er með allt öðrum hætti, sjálfsagt vegna þess að hún er ekki gerð fyrir neinn sem tengist gangamálinu og dregur ekki taum neins nema þá helst skattgreiðenda og sameiginlegs sjóðs þeirra – ríkissjóðs. Pálmi var mjög afdráttarlaus í málflutningi sínum og svörum. Hann gagnrýndi einarðlega vinnubrögð höfunda hinna skýrslnanna og sagði m.a. þetta: „Ég fullyrði það hér og nú að það er hægt að fá þessa útreikninga líka til þess að enda jákvætt þó að stofnkostnaðurinn tvöfaldist. Þetta er lögmálið um kúlulánið -meðan að höfuðstóllinn vex ekki langt umfram og ef hægt er að teikna upp einhvern framtíðarvöxt sem er línuleg breyta langt fram í tímann,“ sagði Pálmi. Hann kvaðst einnig fullyrða að enginn banki með viti myndi lána til framkvæmdarinnar út á vangaveltur um það hvernig hlutirnir verða eftir 20 ár eða jafnvel 50. „Ef hlutirnir ganga ekki reikningslega upp í dag eða fyrstu þrjú til fimm árin eftir að reksturinn hefst, þá er grundvallaratriðið einfaldlega þetta: Verkefnið er ekki tímabært. Hann sagði ennfremur að ástæða þess að engir aðrir en ríkið fæst til að fjármagna verkið sé mjög einföld. Enginn lánveitandi, bankar eða sjóðir séu tilbúnir til að taka þá gríðarlegu áhættu sem í þessu er fólgin.

Meginhugmyndin sem gangamenn ganga út frá er sú að ríkissjóður taki lán til framkvæmdarinnar og endurláni Vaðlaheiðarhöngum hf. Þegar framkvæmdum síðan lýkur verður tekið nýtt lán til að greiða upp lán ríkissjóðs. Ríkissjóðslánið er því einskonar kúlulán sem ætlun er að umbreyta í langtímalán þegar framkvæmdum er lokið og veggjöld umferðarinnar byrjuð að streyma í kassann. Ef hins vegar ekkert fæst lánið þá fellur framkvæmdalánið einfaldlega á ríkissjóð að einhverju eða öllu leyti ef enginn finnst lánveitandinn.