Fúskað við undirbúning Vaðlaheiðarganga

Það er fremur dapurleg einkunn sem Pálmi Kristinsson verkfræðingur gefur undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga. Í ítarlegri skýrslu sem Pálmi birti opinberlega í byrjun janúar segir hann að ráðgjafar við gangagerðina hafi takmarkaða þekkingu og reynslu. Hann segir undirbúning verksins einkennast af óvönduðum vinnubrögðum og skorti á fagmennsku. Það endurspeglist síðan í mikilli vanáætlun á kostnaði, svo og lána- og tekjumöguleikum. Ekki verður séð í fljótu bragði að skýrslan sem Steingrímur J. Sigfússon fyrrv. fjármálaráðherra, 1. þingmaður Norðurkjördæmis og áhugamaður um Vaðlaheiðargöng á ábyrgð fjárvana ríkissjóðs pantaði, hreki í neinum aðalatriðum gagnrýni  Pálma nema síður sé. 

Til samanburðar bendir Pálmi á undirbúning Hvalfjarðarganga. Hann segir að allar áætlanir um kostnað, verktíma og annað sem laut að framkvæmdum og rekstri Hvalfjarðarganga hafi verið mun ítarlegri og vandaðri en núverandi áætlanir um Vaðlaheiðargöng. Hann bendir á að fjölmargir þaulreyndir alþjóðlegir fjármálasérfræðingar hafi verið að störfum, svo og alþjóðlegir ráðgjafar og sérfræðingar á sviði lögfræði, verkfræði, jarðfræði, tryggingarmála og verkframkvæmda. Pálmi segir að aðkoma þessara ráðgjafa hafi skipt miklu máli um velgengni Hvalfjarðarganga frá fyrsta degi.

Pálmi bendir á að öll áhætta af verkinu lendi á ríkinu, jafnt vegna framkvæmda og lántöku. Hann segir að fjárhagslega gangi verkefnið ekki upp og telur óhjákvæmilegt að ríkissjóður þurfi að taka á sig allt að 5 milljarða króna vegna gangagerðarinnar.

Falleinkunn Pálma kemur fram um nánast alla þætti undirbúningsins.

  • Þjóðhagsleg arðsemi er of lítil.
  • Mikil óvissa er enn um áætlaðan heildarkostnað.
  • Áætlaður umsjónar- og stjórnunarkostnaður er of lágur.
  • Áætlaður rekstrar- og viðhaldskostnaður er of lágur.
  • Áætlaður kostnaður við innheimtu veggjalda er of lágur.
  • Spá um umferðaraukningu á næstu árum er of há.
  • Greiðsluvilji vegfarenda er ofmetinn.
  • Fjárhæð veggjalda er of há.
  • Tekjur af veggjöldum munu ekki ná að standa undir öllum kostnaði.

Pálmi telur engan vafa leika á því að Vaðlaheiðargöng geti orðið hin mesta samgöngubót fyrir vegfarendur og íbúa og fyrirtæki á Norðausturlandi. Forsendur fyrir ákvarðanatöku um gerð ganganna þurfi hins vegar að vera raunsæjar og byggðar á vönduðum vinnubrögðum.