Fyrirhuguð veggjöld – komdu sjónarmiðum þínum á framfæri

Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur fengið sterk viðbrögð frá félagsmönnum við auknum sköttum á suðvesturhorninu sem fylgja hugmyndum um veggjöld sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið með til umfjöllunar. Eins og komið hefur fram hefur mikill fjöldi umsagna borist nefndinni þar sem hugmyndum um veggjöld er andmælt. Vel á þriðja hundrað umsagnir eru skráðar til nefndarinnar vegna málsins og mæla yfirgnæfandi þeirra gegn veggjöldum.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur látið þetta mál til sín taka og í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir jólin segir hann m.a. að aðalatriðið var að þær forsendur sem stjórnarmeirihlutinn var að leggja til voru miklu meiri en einstakar veggjaldaframkvæmdir. Gjaldtaka í kringum allt höfuðborgarsvæðið og í flestum göngum landsins. Meiri háttar breytingar á fjármögnun samgöngukerfisins, án þess að gefa hagsmunaaðilum, borgurum landsins, tækifæri til þess að gera athugasemd við málið. Það tókst hins vegar að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar þangað til í lok janúar.

Nú er tækifærið að láta skoðun sína í ljós

Það þýðir að þú hefur nú tækifæri til þess að láta skoðun þína í ljós í þessu máli. Það er mjög einfalt að gera. Þú sendir tölvupóst á nefndarsvid@althingi.is með fyrirsögninni: „Umsögn um Samgönguáætlun, mál 172 og 173“, nafninu þínu og athugasemd sem getur þá verið annaðhvort „Ég andmæli áformum um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar“ eða „Ég styð áform um álagningu veggjalda eins og þær koma fram í forsendum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar."

Einnig getur þú farið á vefsíðuna https://sites.google.com/view/veggjold og smellt á annan hvorn takkann sem þar er að finna til þess að auðvelda þér umsögnina. Almenningur er hvattur til að láta skoðun sína í ljós með þessum hætti sem nú þegar yfir 800 manns hafa nýtt sér.