Fyrirsjáanleg umferðarslys

Banaslysið sem varð á veginum frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að Rósaselstorgi sl mánudag hefði tæpast átt sér stað ef þessi fjölfarni vegarspotti hefði verið sómasamlega frágenginn og í stakk búinn til að anna umferð til og frá flugstöðinni, langstærstu fólksflutningamiðstöð Íslands.

Frá því að meginhluti Reykjanesbrautar var tvöfaldaður með tveimur akreinum til hvorrar áttar, hafa slys á tvöfölduninni verið fátíð. Öðru máli gegnir um báða enda brautarinnar sem enn eru með aðeins einni akrein í hvora átt og engri aðgreiningu milli akstursstefna. Annarsvegar er það kaflinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og hins vegar milli Fitja og Leifsstöðvar. Báðir þessir kaflar eru mjög fjölfarnir og mjög brýnt að gera á þeim úrbætur sem hindra slys sem fyrirsjáanleg eru, verði ekkert gert.

Á báðum þessum afræktu köflum hafa mörg alvarleg slys orðið, nú síðast fyrstnefnda slysið skammt frá Rósaselstorgi og síðan annað skömmu síðar á Hvaleyrarholtinu móts við Áslandshverfi í Hafnarfirði. Í því slysi var bifreið ekið í veg fyrir lögreglumann á mótorhjóli sem var undanfari sjúkrabíls í neyðarakstri, og var að flytja slasaðan mann úr slysinu við Rósaselstorg á bráðamóttöku Landspítalans. Lögreglumaðurinn er alvarlega slasaður eftir áreksturinn.

Á vegum FÍB hefur undanfarin ár farið fram áhættugreining á íslenska vegakerfinu undir merki EuroRAP stofnunarinnar sem stofnuð var á sínum tíma af alþjóðasamtökum bifreiðaeigenda og er í eigu þeirra og á forræði einstakra landsfélaga sem á Íslandi er FÍB. Ólafur Kr. Guðmundsson hefur verið starfsmaður EuroRAP á Íslandi og hefur sem slíkur ítrekað áhættugreint Reykjanesbrautina og marg bent á þær hættur sem þar leynast, bæði á sjálfri tvöfölduninni og eins og ekki síður við endana sem ekki hefur enn tekist að ljúka - ekki einu sinni að byrja á að ljúka við.

Í samtali við morgunþátt Bylgjunnar í morgun sagði Ólafur að slysin tvö á Reykjanesbraut á mánudag hefðu mátt vera fyrirséð. „Við vitum alveg hvað hefði komið í veg fyrir þessi slys og það er að það væri miðjuskipting þarna. Það væri að hafa vegrið í miðjunni, eða tvöföldun með vegrið í miðjunni. Þetta er það sem skiptir máli og við erum búin að vita þetta lengi,“ sagði Ólafur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Við vitum alveg hvað hefði komið í veg fyrir bæði þessi slys“  Visir.is 19. OKTÓBER 2016

Nánar um EuroRAP vegaöryggi