Fyrsta fjölorkustöð landsins tekin í notkun

Olíuverzlun Íslands tók í notkun nýja hraðhleðslustöð í Álfheimum fyrir rafmagnsbíla í dag og verður þjónustustöðin fyrsta fjölorkustöð landsins sem býður upp á rafmagn og metan, auk hefbundins eldsneytis þ.e. bensín og dísil. Innflutningur rafmagns- og tengiltvinnbíla hefur aukist mikið á síðustu árum, samkvæmt upplýsingum frá Orkusetrinu, og notkun hreinna rafbíla hefur einnig aukist jafnt og þétt.

„Við hjá Olís viljum mæta aukinni eftirspurn eftir fjölbreyttum orkugjöfum og koma þannig til móts við þarfir viðskiptavina okkar og jafnframt hafa jákvæð áhrif á umhverfið,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri félagsins. Olís hefur allt frá árinu 1995 unnið eftir skýrri umhverfisstefnu, sem var samþykkt af þáverandi stjórn félagsins, þar sem umhverfisvernd er höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins. Með fjölgun rafhleðslustöðva hefur Olís tekið nýtt grænt skref.

„Við stefnum að því að fjölga hraðhleðslustöðvum og öðrum grænum orkugjöfum jafnt og þétt á þjónustustöðvum okkar vítt og breitt um landið. En við viljum líka stuðla að umhverfisvernd við förgun úrgangsefna, endurnýtingu umbúða og byggingu mannvirkja. Allt skiptir þetta máli og það er nauðsynlegt að standa vörð um náttúru landsins og skila auðlindum okkar í betra horfi til komandi kynslóða,“ segir Jón Ólafur.

Hann segir ennfremur að Olís vilji nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt í þágu atvinnulífsins, landsmönnum og komandi kynslóðum til efnahagslegs og félagslegs ábata, án þess að ganga á höfuðstól auðlindanna. ,,Félagið vill stuðla að sjálfbærum vexti auðlinda svo sem kostur er með skynsamlegri nýtingu þeirra og leggur áherslu á uppgræðslu landsins þar sem tekið er tillit til atvinnustarfseminnar í landinu og fjölbreytileika náttúru þess."

Fyrsti viðskiptavinurinn til þess að nýta sér þjónustuna var Natalie Quellette, sem er kanadískur ríkisborgari. Hún er búsett á Íslandi og ekur á VW e-Golf.
Olís er með metanafgreiðslu á tveimur þjónustustöðvum í Reykjavík – í Álheimum og Mjóddinni – og eina á Akureyri. Nýlega opnaði félagið hraðhleðslustöð á Höfn í Hornafirði og á Siglufirði. Einnig er hægt að að hlaða rafbíla á þjónustustöð Olís á Selfossi.


Myndatexti: Fyrsti viðskiptavinurinn til þess að nýta sér þjónustuna var Natalie Quellette, sem er kanadískur ríkisborgari. Hún er búsett á Íslandi og ekur á VW e-Golf.