Fyrsta hleðslan á Djúpavogi

Ólöf Rún Stefánsdóttir rafbílaeigandi hlóð bílinn sinn á Djúpavogi í vikunni þegar tuttugasta hlaða ON var tekin þar í notkun. Hlaðan er hvorttveggja búin hraðhleðslu fyrir rafbíla og hefðbundinni hleðslu. Fyrir jól mun ON bæta við hlöðum sunnan Vatnajökuls og á Egilsstöðum.

Hlaðan er við veitingastaðinn Voginn sem býður margháttaða þjónustu og við hann stendur hlaðan. Hún er búin þrenns konar tengjum til hraðhleðslu rafbíla og hefðbundinni hleðslu að auki.

ON, sem hefur einsett sér að varða hringveginn hlöðum, mun á næstu dögum opna hlöður við Jökulsárlón og í Freysnesi sunnan Vatnajökuls og á Egilsstöðum.

Á næstu vikum bætast svo við hlöður á Stöðvarfirði, við Minni-Borg í Grímsnesi, við Mývatn og við þjónustustöðvar N1 hvorttveggja við Lækjargötu í Hafnarfirði og í Mosfellsbæ.

Hlöður ON verða orðnar fleiri en 50 í árslok 2018. ON á í samstarfi við fjölda aðila um uppbygginguna. Einna mikilvægastir eru þeir sem leggja til aðstöðu fyrir hlöðurnar og hefur N1 leikið þar stórt hlutverk.