Fyrsta skrefið að dauðaslysalausri umferð

 Á fundi FÍB um umferðaröryggi í Hafnarfirði 11. janúar, var ályktað að skora á stjórnvöld að ljúka á næstu 12 mánuðum að leggja vegrið á milli akbrauta á þeim 47 kílómetrum 2+2 vega í landinu sem enn eru án slíkra vegriða. Þetta er fyrsta skrefið af mörgum í áætlun FÍB um að Íslandi veði án banaslysa í umferðinni innan 5 ára

 Áherslan á að byrja átakið á uppsetningu vegriða milli akbrauta á 2+2 vegum er vegna mikils hraða og þungrar umferðar á slíkum vegum. Bent hefur verið á að afstýra hefði mátt hinu hörmulega umferðarslysi á Hafnarfjarðarvegi 18. desember síðastliðinn ef vegrið hefði verið á milli akbrautanna.

 Steinþór Jónsson, formaður FÍB, kynnti á fundinum í Hafnarfirði á svokallaða núllsýn FÍB og Umferðarráðs um banaslys í umferðinni. FÍB telur að með betri umferðarmenningu, betri umferðarmannavirkjum og betri ökutækjum sé raunhæft að stefna að því að innan 5 ára verði engin banaslys í umferðinni og stórlega dragi úr öðrum slysum.

http://www.fib.is/myndir/Frummaelendur.jpg
Frummælendur á fundinum. Frá v. sr. Karl V. Matthíasson formaður umferðarráðs, Ólafur Kr. Guðmundsson verkefnisstjóri EuroRAP á Íslandi, Steinþór Jónsson formaður FÍB, Kristinn Hrafnsson fréttamaður og Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.

 Steinþór rifjaði upp að á þessum degi fyrir 9 árum hafi Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut komið saman ásamt ráðherrum og þingmönnum til að ræða tvöföldun Reykjanesbrautar. Markmiðið var að ná samstöðu um fækkun banaslysa á Reykjanesbraut, sem þá höfðu verið allt að 5-6 árlega. Hörmulegt slys rétt fyrir jólahátíðina 1999, þar sem þrír einstaklingar af Suðurnesjum létust, varð til þess að fólk þjappaði sér saman um athafnir í stað orða. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og enginn hefur látist í umferðarslysum á tvöfaldaðri Reykjanesbraut í um sex ár. Þessi eina framkvæmd hefur því bjargað rúmlega 30 mannslífum á þessum tíma.

 Ólafur Guðmundsson, varaformaður FÍB, sagði að núllsýn um banaslys í umferðinni væri fyllilega raunhæf. Hann benti á að á sínum tíma hefði mikið átak verið gert til að draga úr slysum á sjómönnum og það hefði skilað miklum árangri. Hann sagði að þróun umferðarslysa hér sýndi að þeim væri að fækka. Sú þróun þyrfti einfaldlega að halda áfram. Engu að síður kosta umferðarslys þjóðarbúið á milli 40-50 milljarða króna árlega, sagði Ólafur. Því væri auðvelt að réttlæta allar fjárfestingar í betri umferðarmannsvirkjum og bættri umferðarmenningu. Ólafur sagði að á síðastliðnum 5 árum hefðu rúmlega 100 manns látist í umferðinni og alls hefðu 7 þúsund manns slasast. Af öllum banaslysum hér á landi eiga 60% sér stað í umferðinni.

 Formaður FÍB sagði á fundinum að á alþjóðavísu væri viðurkennt að til að ná tilætluðum árangri í þessum efnum þyrfti að herja á stjórnvöld og fjölmiðla. Kristinn Hrafnsson, fréttamaður á RÚV, sem talaði á fundinum, sagðist fagna því að vera í þessum markhópi. Hann sagði mikilvægt fyrir fréttamenn að segja ekki aðeins fréttir af því sem miður færi í þjóðfélaginu, á borð við umferðarslys, heldur þyrfti ekki síður að skyggnast á bakvið og greina ástæðurnar. Hann sagði að það væri íhugunarefni hvers vegna fréttir af slysum í umferðinni vektu sjaldnast athygli nema þegar um stórslys væri að ræða, á meðan slys annars staðar teldust einatt fréttnæm. Hugsanlega væru fréttamenn hættir að telja umferðarslys fréttnæm vegna þess hversu algeng þau væru. Kristinn sagðist vonast til að geta einhvern tímann í náinni framtíð flutt frétt þess efnis að á nýliðnu ári hefðu engin banaslys orðið í umferðinni hér á landi.

 Á fundinum tóku einnig til máls Karl V. Matthíasson formaður Umferðarráðs og Ólafur Rafnsson forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands.