Fyrsti rafbíllinn árekstursprófaður hjá EuroNCAP

 

 

EuroNCAP hefur í fyrsta sinn árekstursprófað rafbíl. Bíllinn, sem er Mitsubishi I-Miew, var prófaður á nákvæmlega sama hátt og eftir sömu forsendum og aðrir bílar. Segja má að útkoman sé vel viðunandi en bíllinn hlaut fjórar stjörnur af fimm. Søren W. Rasmussen  sérfræðingur FDM, hins danska systurfélags FÍB í árekstursprófunum EuroNCAP, segir að skýringin á því að rafmagnsbíllinn náði ekki fimmtu stjörnunni sé sú að I-Miew er í raun gömul hönnun. Þessi smábíll hafi fyrst komið á heimamarkað í Japan fyrir fimm árum, þá með bensínvél. Sjá kvikmynd.

http://www.fib.is/myndir/elbil.jpg
Mitsubishi i-Miew rafbíll.
http://www.fib.is/myndir/BMWX1.jpg
BMW X1.
http://www.fib.is/myndir/DaciaDuster.jpg
Dacia Duster.
http://www.fib.is/myndir/Hyundai_ix20.jpg
Hyundai ix20.
http://www.fib.is/myndir/Mitsubishi_ASX.jpg
Mitsubishi ASX.

Það verði því spennandi að fylgjast með niðurstöðum kannana á nýjustu rafbílunum sem hannaðir eru frá grunni sem rafbílar en þeir verða prófaðir síðar á árinu.

Mitsubishi I-Miew er seldur í Evrópu undir þremur tegundarheitum; sem Mitsubishi en líka sem Peugeot Ion og Citroën C-Zero. Þetta er fjögurra manna smábíll og tvö eintök af honum fyrirfinnast á Íslandi, báðir með hægri handar stýri. Auk rafmagnsbílsins voru í nýafstaðinni prófunarlotu EuroNCAP prófaðir fimm bílar. Einn þeirra hlaut einungis þrjár stjörnur sem telst vart viðunandi. Það er hinn rúmenski Dacia Duster, en Dacia er undirmerki Renault.

Dacia Duster sem verst stóð sig að þessu sinni, með aðeins þrjár stjörnur, er ekki á markaði hér á landi, né annarsstaðar á Norðurlöndum. Í honum fyrirfinnst ekki ESC stöðugleikakerfi sem er skilyrði fyrir fimmtu stjörnunni. Søren W. Rasmussen segir að slík vöntun ætti að vera frágangssök. Fólk ætti yfirhöfuð ekki að hugleiða kaup á bílum án þessa kerfis og yfirleitt ekki á bílum sem fengið hafa færri en fjórar stjörnur.

Þeir af bílunum nú sem fimm stjörnur hlutu eru BMW X1, Hyundai ix20, Mitsubishi ASX og Nissan Juke. Þeir sem fjórar hlutu eru Mitsubishi i-MiEV (Citroën C-Zero og Peugeot ion).

Í úrvinnslu gagna eftir árekstursprófun EuroNCAP er þyngst vægi á vernd fullorðinna í bílnum. Bíll getur síðan hlotið viðbótarstig (eða misst stig) eftir því hvort vernd barnanna í bílnum og fótgangandi sem fyrir honum verða, er góð eða slök. Rafbíllinn I-Miew hlaut stjörnurnar fjórar fyrir vernd fullorðinna í bæði framaná- og hliðarárekstrum. Engin vandamál komu í ljós í sambandi við rafbúnað bílsins og ESC stöðugleikakerfi er staðalbúnaður.

BMW X1: 5 stjörnur

Smá-jepplingurinn X1 frá BMW stóð sig vel í meginatriðum. Þó mætti styrkur hans gagnvart hliðarárekstri við staur batna. Sömuleiðis þyrftu höfuðpúðar að gerast betur úr garði til varnar gegn hálshnykk. Í stærri jepplingunum X3 og X5 er búið að gera það með ágætum. ESC kerfi er staðalbúnaður.

Dacia Duster: 3 stjörnur

Dacia Duster er ekki á markaði á Íslandi sem kannski er ástæðulaust að harma því að öryggisbúnaður í honum er heldur slakur á nútímavísu. Að bíll sem er þó þetta veglegur skuli ekki fást með ESC skrikvörn gerir EuroNCAP alvarlegar athugasemdir við. Fólkið inni í bílnum er þó þokkalega varið í árekstrum en gangandi fólk ekki.  

Hyundai ix20: 5 stjörnur

Hyundai ix20 veitir fólkinu í bílnum almennt góða vörn þótt bringa ökumannsins mætti vera betur varin. Einnig mætti ganga svo frá kveikjulásnum og stýrisleggnum að minni meiðslahætta stafaði frá hvorutveggja. Bíllinn er sérlega þolinn gagnvart hliðarárekstri og ESC er staðalbúnaður. Hyundai ix20 er sami bíll og Kia Venga sem áður hefur verið árekstursprófaður með sömu niðurstöðu.

http://www.fib.is/myndir/Nissan_Juke.jpg
Nissan Juke.

Mitsubishi ASX: 5 stjörnur

Venjulega eru hábyggðir bílar eins og þessi góðir í að verja fólk í hliðarárekstrum. Það gilti þó ekki um ASX bílinn þar sem álag á búkinn var umtalsvert í hliðarárekstri við staur. Þá var virkni höfuðpúða gagnvart hálshnykk einungis í meðallagi sem olli vonbrigðum. Bíllinn þoldi hins vegar ágætlega hliðarárekstur þar sem bíll ekur í hliðina á honum. ESC er staðalbúnaður.

Nissan Juke: 5 stjörnur

Nissan Juke er nokkuð hábyggður bíll sem þýðir að hann er ekki sérlega hollur þeim fótgangandi sem fyrir honum verða. Ekki síst þess vegna rétt nær bíllinn fimmtu stjörnunni. Vernd fullorðinna í árekstrum er góð en höfuðpúðar mættu batna. ESC er staðalbúnaður.