Fyrsti rafbíllinn frá Opel á leiðinni

Nú hyllir undir það að fyrsti rafmagnsbíllinn frá þýska bílaframleiðandanum Opel komi á markað. Á fyrstu mánuðum næsta árs rennur upp stór stund í sögu Opel þegar kynntur verður rafbíll af gerðinni Opel Corsa-e sem hefur verið söluhæsta merki bílaframleiðandans um áratuga skeið.

Opel hafði áform um að koma með þennan bíl á markað mun fyrr en ýmsar ástæður komu i veg fyrir það. Opel Corsa-e verður af nýrri kynslóð hins vinsæla Corsa bíls en hann verður fyrsti bíll Opel sem hannaður er frá grunni undir eignarhaldi PSA Group, en Opel var keypt af franska bílaframleiðandanum seint á árinu 2017. PSA framleiðir Peugeot og Citroén bíla.

Opel Corsa-e verður með 340 km drægi frá 50 kWh rafghlöðum og afl rafmótora hans verður 134 hestöfl. Corsa-e verður að sjálfsögðu með Vauxhall merkið á Bretlandsmarkaði, en Vauxhall merkið tilheyrir Opel. Bíllinn verður eingöngu í 5 hurða útfærslu og svo til eins í útliti og hefðbundnar útgáfur hans með brunavélum. Opel ætlar að bjóða rafmagnaða útgáfu af hverjum og einum bíla sinna frá og með árinu 2024.