Gæðafall hjá Ford í USA

Árleg rannsókn Consumer Reports í Bandaríkjunum sýnir að eitthvað hefur gæðaeftirlit hjá Ford í Detroit breyst, því að tegundin hefur hrapað niður um tíu sæti í gæðakönnun tímaritsins frá könnun síðasta árs og hafnar í því tuttugasta. Fjarri fer þó að Ford bílarnir hafi skyndilega breyst úr gæðavögnum í druslur. Ástæða hrapsins er fyrst og fremst sú að í nýjustu kynslóðum Explorer, Fiesta og Focus hafa komið upp bilanir og leiðindi í svonefndu Infosystemi bílanna sem nefnist MyFord Touch, en innan þess eru m.a. hljómtæki, símakerfi, leiðsögukerfi o.fl. Einnig hefur borið á hnökrum í sjálfskiptingum. Tvíorkubíllinn Fusion virðist hins vegar vel vandaður.

Í heild spjara bandarísku framleiðendurnir Chrysler, GM og Ford sig vel í könnuninni og Chrysler bílarnir eru greinilega enn á uppleið eins og undanfarin ár. Þannig er Jeep kominn í 13. sæti og er þar með orðinn besti bandaríski bíllinn í könnuninni. 

Japönsku bílarnir skipa efstu sætin á gæðalista Consumer Reports eins og mörg undanfarin ár, En nú ber svo við að Volvo hefur skotist inn í tíunda sætið. Listinn er annars svona:

1. Scion
2. Lexus
3. Acura
4. Mazda
5. Honda
6. Toyota
7. Infiniti
8. Subaru
9. Nissan
10. Volvo

GM tegundirnar Buick og Cadillac hafa fallið niður á listanum. Við þá sögu koma bílar eins og Buick Regal (sem í raun er Opel Insignia) og Chevrolet Cruze. Báðir bílarnir eru nýir á listanum og mældust undir meðallagi. Japönsku bílarnir er  í nokkrum sérflokki því að af 91 gerð japanskra bíla reyndust 87 prósent fá frá meðaleinkunn upp í toppeinkunn. Mazda stökk upp um átta sæti frá könnun síðasta árs. Þá skaust Volvo upp í 10. sætið.

Gengi evrópskra bíla var nokkuð misjafnt. Jepplingarnir BMW X3 og Mercedes GLK fengu ágætar einkunnir. Ekki verður það sama sagt um BMW 5-línuna né Mercedes  S-línuna. Báðar eru undir meðallagi.

Rannsókn Consumer Reports nær til bíla á Bandaríkjamarkaði og tekur til 1,3 milljóna bíla af árgerðum 2002 – 2011. Bílarnir eru í eigu eða langtímaleigu hjá fólki sem er áskrifendur að Consumer Reports.