Gægjufíkn Stóra Bróður
Nýlegur dómur um njósnaathæfi með ísetningu ökurita í bifreið, ætti að hvetja til umhugsunar um slíkan tæknibúnað og mögulega misnotkun á slíkum tækjum almennt. Stutt er síðan lögreglan var fundin sek um misbrúkun á slíku tæki við eftirfylgd á einstaklingi, sem hún þó grunaði um fíkniefnasölu.
Fyrrum samgönguráðherra, Kristján L Möller boðaði þá hugljómun sína að ökurita yrði komið fyrir í öllum skráðum ökutækjum á Íslandi. Miðlæg ríkisstofnun gæti í kjölfarið fylgst með og skráð alla vegferð allra ökumanna á Íslandi.
Tilgangur þessa var að búa til nýtt vegagjaldskerfi, nýtt skattheimtuform á bíleigendur. Þá yrði aflagðir eldsneytisskattar, en skattheimtan byggð á rafrænum upplýsingum um ferðir ökutækja. Þá mætti og setja vegi í mismundandi gjaldflokka.
Nýja kerfið ætti að styðja það markmið vel að setja hluta þjóðvegakerfisins í einkaeigu eftir atvikum. Þá fengju séreignarfélög um afmarkaða vegkafla sértekjur greiddar af skráðum vegfarendum um þá.
Hugmyndasmiðir að slíkri altækri eftirfylgd á vegferð allra landmanna fullyrða að öll skráning verði dulkóðuð og ekki rekjanleg til einstaklinga. Samt er hún í raun einstaklingsmiðuð, grundvöllur að einstaklingsmiðaðri skattheimtu, a.m.k. skattheimtu á öllum bílaeigendum, byggð á eftirfylgd með ferðum hvers og eins. Sérhver skattgreiðandi hlýtur að fá röksemd fyrir skattkröfum og röksemdin er þá auðvitað skráningargögnin um ferðir þess sama einstaklings. Þversögn blasir við.
Í raun fær Stóri Bróðir óheyrilegt vald gagnvart sérhverjum einstaklingi sem hreyfir sig úr stað á almannavegum á Íslandi. ,,Dulkóðun" er absúrd því að með henni er horfið aðalmarkmiðið með aksturseftirlitinu.
Hugmyndin hefur verið orðuð innan ESB. Annars vegar vegna einkaeignar á einstaka samgöngumannvirkjum en ekki síður vegna fjölþjóðanotkunar á mannvirkjum, sem þó eru á forsjá einstaks ríkis, en hagsmunaárekstrar geta af þeim ástæðum orðið. Hugmyndinni er þó almennt hafnað á meginlandinu, ekki síst með vísan til verndar persónuréttar þegnanna. Hún telst þar óraunsæ, óframkvæmanleg, felur í sér aðför að friðhelgum mannréttindum.
Einkaeign á íslenskum almannavegum er ekki á orðin á Íslandi, þótt að henni séu lögð drög. Þjóðvegakerfið er ,,lokað" á eyríkinu Íslandi og fjölþjóðleg notkun þess ekki rök fyrir altækri ökuritun, skráningu á vegferð allra ökumanna.
Svo vill til að nú er samgöngu- og mannréttindamálum komið fyrir í sama ráðuneyti, IRR. Ennþá vakir þar hugmynd um allsherjarskráningu á vegferð allra ökumanna á Íslandi. ,,Nauðsyn hins mögulega" er þá kynnt til sögu, þ.e. að senn sé skapaður tæknibúnaður til slíkrar persónulegrar eftirfylgni, með skattheimtu að opinberu markmiði. Eftirfylgni sem augljóslega er líka form ríkisnjósna með þegnunum.
Hérlendis blundar ennþá þrá eftir einkavæðingu almannavega, sem birtist í ýmsum kunnum tilbrigðum fyrir og eftir blómatíma froðuhagkerfisins. Þótt þar rekist flest á almannasjónarmið og almannahagsmuni, ber ennþá á draumakippum. Einn angi draumafaranna er einmitt ökuritun á öllum þegnum. Þar á að finnast kerfi til að deila veggjöldum milli einkafyrirtækja og ríkis eftir atvikum og samkvæmt geðþótta á hverjum tíma, stýra vegferð einstaklinga, skrá hana, rukka í kjölfarið. Ennfremur er þá mögulegt að setja mismunandi taxtagjald á vegspotta og skattleggja þannig ferðaþarfir fólks eftir búsetu eða landshlutum.
Nýfallinn dómur um persónunjósnir með ökuritun er hugvaki. Ef lögþvingun á að beita alla akandi vegfarendur um almannavegi svo eftirfylgni með ferðum sé möguleg, því þá ekki að taka til sama ráðs gagnvart hjólreiðamönnum og hestríðandi, hlaupandi og gangandi ? Varla mun skorta á tæknilausnir til þessa. Mannréttindadeild IRR ætti að starfa með samgöngudeildinni.
,,Það er sama hvar frómur flækist" er ágæt speki. Í því ljósi má álykta að eftirfylgni með frómum einstaklingum sé þeim að skaðlausu. Á móti kemur að hinir frómu eiga sér friðhelgi einka- lífs, svokölluð mannréttindi. Ökuritun snertir þau réttindi.
-Baldur Andrésson, atkitekt. okt 2011.