Galileo staðsetningarkerfinu seinkar

http://www.fib.is/myndir/GPS-tom-tom.jpg

Evrópska staðsetningarkerfið Galileo sem unnið hefur verið að undanfarið verður bæði dýrara og auk þess ekki tilbúið innan þess tíma sem upphaflegar áætlanir gerður ráð fyrir.

Unnið hefur verið að þróun kerfisins að frumkvæði Evrópusambandsins. Með tilkomu þess verða Evrópubúar óháðir hinu bandaríska GPS staðsetningarkerfi sem fyrst og fremst er hugsað út frá hernaðarsjónarmiðum. Ef ófriðvænlegt verður í Evrópu að mati eigendanna, Bandaríkjamanna, geta þeir auðveldlega lokað kerfinu fyrir almenningi.

Evrópusambandið ákvað því að koma á fót nýju borgaralegu kerfi, Galileo kerfinu fyrir Evrópu og upphaflega var áætlað að taka það í notkun á næsta ári. Það mun ekki ganga eftir og síðustu fréttir frá Brussel herma að kerfið verði ekki tilbúið fyrr en 2011-20012.

Galileo kerfið er fyrst og fremst hugsað til almennra nota eins og t.d. fyrir bíla, siglingar og borgaralegt flug svo fátt sé nefnt af notkunarmöguleikum slíkra kerfa. Það verður uppbyggt af 30 gervihnöttum og á að verða verulega nákvæmara en hið bandaríska GPS kerfi og hið rússneska GLONASS sem einnig er fyrst og fremst hernaðarlegs eðlis.