Gamall „góðhestur“ hverfur

The image “http://www.fib.is/myndir/Volgafrontlitil.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Volga árgerð 1959
Komið er að endalokum Volgunnar – rússnesku drossíunnar sem  var aðal farartæki starfsmanna KGB leyniþjónustunnar og fleiri háttsettra manna innan rússneska kommúnistaflokksins allar götur frá því að framleiðsla bílsins hófst árið 1956 og þar til stjórn kommúnista leið undir lok. Rússneskar fréttastofur greina frá því að smíði Volgunnar verði hætt innan tíðar.
Volga náði því að verða talsvert algengur bíll á Íslandi á tímum hafta og skömmtunar eftir seinna stríð. Þetta var tímabil ríkisstýrðrar vöruskiptaverslunar við ríki Varsjárbandalagsins og nánast einu bílarnir sem íslenskum almenningi stóð til boða að kaupa voru rússneskir, tékkneskir eða austurþýskir. Þetta voru tímar bíla eins og „Blöðruskóda,“ Rússajeppa, Moskvits og Pobeda sem Volgan svo leysti af hólmi.
Fyrri gerð Volgunnar var framleidd frá 1956 til 1970. Þá tók við síðari gerðin sem hefur verið framleidd með minniháttar breytingum til þessa. Volgan var hreint ekki afleitur bíll og blm. FÍB-vefsins minnist grænnar Volgu af árgerð 1959 sem Helgi Geirsson kennari á Laugarvatni eignaðist nýja. Volgan hafði svolítið amerískt yfirbragð. Þetta var sex manna fólksbíll, rúmgóður og þægilegur sem fór vel með farþega. Sætin voru mjúk og fjöðrunin sömuleiðis og það var hátt undir bílinn og hægt að aka hiklaust á malarvegum þess tíma sem sannarlega voru ekki hraðbrautir – miklu fremur holóttar og grýttar hrossagötur. Gírkassinn var þriggja gíra og skiptistöngin var á stýrisleggnum eins og í amerísku drossíunum, en vélin var hvorki sex eða átta strokka, heldur fjögurra. Þetta var toppventlavél, 2,3 l og eitthvað rúmlega 70 hö. sem var á þess tíma mælikvarða bara talsvert, því að  aflið í t.d. Blöðruskódanum var innan við helmingur þess og sama er að segja um Willysjeppann gamla sem enn var algengur um þetta leyti. Volgan var því talsvert mikill bíll, og falleg var hún vissulega. Hönnunin var djarfleg og svipmikil og er svo komið að hún er í dag (eldri gerðin) talsvert eftirsóttur safngripur og góð eintök seljast á háu verði.
Bílaverksmiðjan sem framleiddi Volgunna hét lengst af GAZ. Það er skammstöfun fyrir Gorkij Avtomobili Zavod sem þýðir einfaldlega Gorkij bílaverksmiðjan. Þetta var að sjálfsögðu ríkisfyrirtæki á dögum sovétskipulagsins en er nú í eigu manns að nafni Oleg Deripaska og heitir RusPromAvto. Oleg segir við TASS fréttastofuna að hætt verði að framleiða Volguna vegna þess að tap sé á framleiðslunni. Verksmiðjan muni framvegis einbeita sér að smíði sendibíla sem heita GAZelle og Sobol auk stærri vörubíla og rútubíla.
The image “http://www.fib.is/myndir/Volga-gamla.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Volga 1970, síðasta árgerð eldri gerðarinnar.
The image “http://www.fib.is/myndir/Volgaback.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Baksvipur 1959 árgerðarinnar.
The image “http://www.fib.is/myndir/VolgaNyjasta.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Nýjasta Volgan og sú síðasta að öllum líkindum.