Gamall heilbrigður betri en ungur heilsulaus

Vísindamenn við MIT (Massachusetts Institute of Technology) í Boston í USA telja að ungir og heilsulitlir ökumenn sem kannski þurfa að taka lyf, séu miklu háskalegri í umferðinni og líklegri til að eiga þátt í slysum en eldri ökumenn við góða heilsu. „75 ára heilsuhraust manneskja er miklu betri ökumaður en 55 ára heilsutæp manneskja,“ segir Bryan Reimer fæðimaður við MIT sem gert hefur fjölda rannsókna á því hvað það er sem mestu skiptir um ökuhæfni fólks.

MIT hefur yfir að ráða ökuhermi sem ekki bara leiðir í ljós hversu hæf manneskja er til að takast á við sjálfa umferðina, heldur líka hversu vel henni gengur að halda einbeitingu og láta ekki atriði eins og sírenuvæl og hvers kyns uppákomur í umferðinni trufla sig. Reimer segir að þeir yngri láti miklu fremur en þeir eldri hluti eins og útvarp og hljómtæki trufla sig. Þá komi hvers kyns uppákomur sem vænta má í umferðinni, þar á meðal sírenuvæl, þeim yngri miklu fremur úr jafnvægi en en þeim eldri.

En í sem stystu máli þá er það niðurstaða bandarísku vísindamannanna að það sé heilsufar ökumanna sem mestu skiptir um hversu góðir ökumenn fólk er. Sjálfur aldurinn skipti þar mun minna máli og minna en hingað til hefur verið talið. Í mörgum nágrannalanda okkar eru ökumenn skyldir til að standast árlega læknisrannsókn eftir 70 ára aldur til að halda ökuréttindum. Í Noregi vilja menn hækka þetta aldursmark upp í 75 ár vegna þess hve almennt heilsufar sjötugs fólks er orðið gott og miklu betra en fyrir aðeins fáum árum síðan.