Gamla Volkswagen bjallan bönnuð sem leigubíll

Stjórnvöld í Mexíkó hafa bannað leiguakstur á gömlu VW bjöllunum frá og með næstu  áramótum. Bílarnir eru taldir of háskaleg farartæki til leiguaksturs í umferðinni, sérstaklega þó bílar sem búið er að taka framsætið úr til að auðvelda farþegum inn- og útstig í þröngt aftursætið. Framvegis verða bílar að vera fjögurra dyra til að geta fengið heimild til leiguaksturs í Mexíkó.

74 ár eru frá því að Ferdinant Porsche sýndi Adolf Hitler kanslara Þýskalands fyrstu frumgerðir KDF bílsins sem samkvæmt hugmynd leiðtogans átti að verða farartæki hins glaða, öfluga og sterka þýska alþýðufólks, sannur Fólksvagn. Það gekk vissulega eftir þótt á annan hátt yrði en þann sem Nasistarnir höfðu hugsað sér.

Gamla bjallan fór ekki í fjöldaframleiðslu fyrr en að stríði loknu og þá fyrir tilstilli breska hershöfðingjans á Wolfsburg svæðinu. Wolfsburg, heimaborg Volkswagen var einmitt á hernámssvæði Breta og eftir að þeir höfðu náð Wolfsburg og bílaverksmiðjunni þar á sitt vald lét hershöfðinginn byggja nokkra Volkswagenbíla úr hlutum sem fundust í verksmiðjunni. Bílarnir voru ætlaðir til afnota fyrir fólk í ýmissi opinberri þjónustu eins og póstþjónustu, heilsugæslu o.fl. Svo vel líkaði fólknu við bílana að ákváðu að taka upp þráðinn í framleiðslunni þar sem honum sleppti í stríðsbyrjun árið 1939. Bretarnir réðu svo upp úr 1950 Heinz nokkurn Nordhoff sem á millistríðs- og stríðsárunum hafði stýrt vörubílaframleiðslu Opel í Russelsheim. Á fyrstu fimm árunum undir stjórn Nordhoffs varð Volkswagen bjallan söluhæsti bíll í Evrópu og verksmiðjan í Wolfsburg sú stærsta og afkastamesta í Evrópu og fjórða stærsta í heiminum. Hætt var að framleiða bjölluna í Þýskalandi árið 1974 en hún framleidd áfram í Brasilíu og Mexíkó fram til ársins 2003. Bjöllurnar sem nú er verið að ýta úr leiguakstrinum í Mexíkó eru því orðnar heldur gamlar eða a.m.k. átta ára.

Bjallan gamla hefur verið mjög áberandi í götumyndinni í s. amerískum borgum um áratugi, ekki ósvipað og Ford Crown Victoria hefur verið í götumyndinni á Manhattan í New York. Í New York gjörðust margir all-ókátir með að Fordinum væri hent út fyrir japanskan Nissan NV200 og á sama hátt eru margir ekki ánægðir í Mexíkó að missa gömlu bjölluna. Bjöllu-leigubílstjórar benda á að blessuð bjallan sé traust og einföld og ódýr í viðhaldi og rekstri. Þá sé hún frekar hægfara en hvorttveggja stuðli að öryggi í umferðinni og haldi fargjöldum niðri.