Gamli Benz G-jeppinn loks á útleið

Hinn klassíski G-jeppi frá Mercedes er nú loks á útleið. Jeppinn hefur verið nánast óbreyttur, í það minnsta í útliti, allar götur frá árinu 1979 og því kannski kominn tími til að uppfæra. Reyndar stóð það til fyrir fáeinum árum, en þá reyndust vinsældir og eftirspurn ennþá þvílík að hætt var við. En nú er semsé komið að því og fyrst verður styttri gerðin eða sú þriggja dyra aflögð, síðan fimm dyra gerðin.

http://www.fib.is/myndir/Bensjeppar-Afganistan.jpg
G-Benz jeppafloti finnskra hermanna í Afganistan.

En ekki gerist þetta þó alveg strax því að áður en framleiðslan á styttri gerðinni hættir kemur á síðari hluta ársins sérstök viðhafnarútgáfa hennar á markað og mun hún nefnast fullu nafni Mercedes G-klass BA3 Final Edition. Felgurnar undir honum verða 18 tommu með krómhring, AMG vatnskassahlíf verður á nefinu og innrétting úr svörtu leðri, valhnotu og sérstök lýsing og sérstök hljómtæki. Meginvél lokaútgáfunnar verður 211 ha V6 dísilvél, sem einnig fæst með eldsneytissparandi Bluetec tækni. Þá er annar klassískur jeppi á útleið einnig, en það er styttri gerð Land Rover Defender sem borið hefur sama svipinn allt frá árinu 1948.

Lengri gerðin kemur einnig  í sérstakri viðhafnarútgáfu á nýju módelári sem hefst í september. Sú á að heita Edition Select og verður á svörtum 18 tommu felgum og með pústkerfi frá AMG, leður- og svartri harðviðarinnréttingu. Edition Select  byggir á G 500 gerðinni sem er með 5,5 lítra, 388 hestafla V8 vél. Ekkert hefur hins vegar verið sagt um hvenær framleiðsla á lengri gerðinni verður hætt.

G-jepparnir frá Mercedes hafa alla tíð verið byggðir í Graz í Austurríki. Þeir voru upphaflega hugsaðir sem herjeppar.