Gangbrautaúttekt EuroTest 2010

Meðal þess sem EuroTest, prófunarstofnun evrópsku bifreiðaeigendafélaganna prófar er öryggi gangandi vegfarenda á merktum gangbrautum yfir umferðargötur.

Byrjað var á því að prófa og meta öryggi á merktum gangbrautum í byrjun árs 2008. Nýjasta prófunin er með verstu útkomuna til þessa þannig að ætla mætti að framfarir í öryggi gangandi vegfarenda séu harla litlar. Í nýjasta prófinu er öryggi fólks á fimmtu hverri gangbraut sem skoðuð var, óviðunandi. Í skýrslu skoðunarmanna segir að fjölmargt verði að bæta í sambandi við gangbrautir. Aðkoma að gangbrautum þurfi að vera betri, samræma þurfi reglur um allar merkingar þeirra, svo sem yfirborðsmerkingar, umferðarmerki og umferðarljós og reglur um hegðan hinna gangandi við og á gangbrautum. Sömuleiðis beri að nýta betur hverskyns tækni en allt sé þetta bráðnauðsynlegt hið allra fyrsta til að tryggja sómasamlega öryggi fólks.

http://www.fib.is/myndir/Gangbr1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Gangbr2.jpg

Á þessu ári sem senn gengur í aldanna skaut hafa 270 gangbrautir í 18 evrópskum borgum í 13 löndum verið skoðaðar. Gangbrautirnar eru flokkaðar eftir því hvort þær eru staðsettar í miðborgum (121 gangbraut), í aðliggjandi hverfum miðborga (113 gangbrautir eða í þriðja lagi í úthverfum (36 gangbrautir).

Algengastu ágallar við gangbrautirnar er sá að það vantar hvíldareyju eða –höfn sérstaklega þar sem gönguleiðin yfir götuna  er löng, ljósastýring er oft ómarkviss og jafnvel ruglandi, sérmerkingar fyrir fótgangandi vantar og því hætta á árekstrum gangandi við hverskonar ökutæki, ekki bara bíla heldur líka reiðhjól, vélhjól og jafnvel hjólastóla. Þá er útsýni yfir gangbrautir oft bágborið sérstaklega eftir að rökkva tekur og sumar gangbrautir eru beinlínis hættulegar vegna þess hve næturlýsing á þeim er slæm eða hreinlega engin. Þetta síðastnefnda á við um fimmtu hverja gangbraut sem prófuð var.

Aðkoma fyrir fótgangandi að gangbrautum var almennt slæm, sérstaklega þó fyrir fatlaða, hvort heldur þeir eru í hjólastól, með göngugrind eða önnur hjálpartæki eða eru blindir eða sjónskertir. Þetta er að mati skoðunarmanna algerlega óviðunandi.
Afleiðing þessa er sú að næstum 2000 af þeim 8000 fótgangandi sem deyja árlega í Evrópu í umferðarslysum verða fyrir vélknúnum farartækjum við eða á merktum gangbrautum – einmitt þar sem þeir hefðu átt að vera nokkurnveginn öruggir. EuroTest úttektir á gangbrautum frá upphafi þeirra í byrjun árs 2008 og til þessa dags sýna að ástand þessara mála fer stöðugt versnandi. Slæmum og hættulegum gangbrautum fer fjölgandi ár frá ári. 

Árið 2008 reyndist áttunda hver gangbraut hættuleg, árið 2009 reyndist sjötta hver gangbraut hættuleg og nú, sem fyrr segir, fimmta hver. Þá reynast gangbrautir í úthverfum 10% hættulegri hinum fótgangandi en gangbrautir í miðborgum. Meginniðurstaðan er því sú að lífsnauðsynlegt er að gera alvarlega bragarbót í þessum efnum hið allra allra fyrsta. Frágangur á gangbrautum er mjög mismunandi, ekki bara eftir löndum og svæðum, heldur líka innan sama lands. Nauðsynlegt er því að samræma reglur um allt sem lýtur að gangbrautum, frágangi þeirra, ljósum, lýsingu og merkingum til að tryggja sem best öryggi gangandi umferðar í borgum og bæjum Evrópu.

Ef litið er til einstakra borga þá kom Belgrad á Balkanskaga afar illa út í fyrstu gangbrautarúttekt EuroTest fyrir þremur árum. Í könnuninni nú er útkoma borgarinnar hins vegar mun betri og er batinn metinn 50%. Brussels, sjálf höfuðborg Evrópu kom einnig illa út árið 2008 og þar fyrirfannst þá versta gangbraut ársins og tvær þær næst verstu. Nú árið 2010 hins vegar reyndisst helmingur gangbrautanna vera með einkunnina mjög gott eða gott og besta gangbrautin reyndist vera í borginni. Þá reyndist aðgengi að gangbrautum í borginni hafa batnað til mikilla muna. Brian Simpson, formaður samgöngunefndar Evrópuþingsins segir af þessu tilefni að það hljóti að vera forgangsmál hjá Evrópusambandinu að tryggja sem best öryggi hinnar viðkvæmu umferðar, þ.e. gangandi og hjólandi fólks. Sérstaklega verði að huga að öryggi hinna fótgangandi. Yfirvöld á hverjum stað sem eiga að ábyrgjast þessi mál eru oft gersamlega þekkingarlaus um þau og hvað hægt sé að gera og hvernig það verði best gert. Því verði Evrópusambandið að sjá til þess að upplýsingar um öryggi borgaranna í umferðinni og leiðir til úrbóta séu aðgengilegar öllum á einum og sama staðnum.

http://www.fib.is/myndir/Tafla1.jpg
http://www.fib.is/myndir/Tafla2.jpg