Gat að koma á dönsku bílaskattamúrana

http://www.fib.is/myndir/Klassiskurbill.jpg
Framvegis verður fólki með lögheimili í Danmörku heimilt að aka atvinnu- og fyrirtækjabílum sem skráðir eru utan Danmerkur ef frumvarp danska skattamálaráðherrans verður að lögum. Frumvarpið nær til starfsmanna sem aka bílum sem eru eign erlendra fyrirtækja með starfsemi í Danmörku. Hinir erlendis skráðu bílar skulu samkvæmt frumvarpinu eingöngu vera notaðir í þágu þeirrar starfsemi sem erlendu fyrirtækin reka í Danmörku og heimalandinu.

Lagafrumvarpið er merki þess að hinir gríðarlegu tollamúrar Dana á bíla eru að veikjast. Hingað til hefur það verið algerlega óhugsandi að sá sem býr í Danmörku og á þar lögheimili aki bíl sem skráður er í öðru landi, nema þá því aðeins að skráður eigandi bílsins sé farþegi í bílnum. Sá Dani sem staðinn er að þeim glæp að aka á bíl á erlendum númerum hefur hingað til verið krafinn um miklar sektargreiðslur og hald lagt á bílinn  og hann jafnvel gerður upptækur.

Lagafrumvarpið er lagt fram til að uppfylla dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins frá 15. september 2005 um notkun fyrirtækjabíla á Evrópska efnahagssvæðinu (mál C-464/02).