Geely eignast bresku leigubílana að fullu

Kínverski bílaframleiðandinn Geely, sem á Volvo fólksbílaverksmiðjurnar með húð og hári, hefur eignast að fullu breska fyrirtækið Manganese Bronze sem byggir Lundúnaleigubílana. Manganeze Bronze hefur talsvert lengi barist í bökkum og vantaði aðeins herslumuninn upp á það að vera gjaldþrota. Geely átti fyrir stóran hlut í fyrirtækinu og var allt eins búist við að það gæfist upp að halda Manganese-Bronze lengur á floti. Það fór þó á annan veg

Manganese-Bronze er vissulega bílasmiðja þrátt fyrir hið sérkennilega nafn. Það var áður móðurfélag breskrar mótorhjólaframleiðslu sem nú er löngu liðin undir lok. Undir Manganese Bronze hafa heyrt sögufræg mótorhjólamerki eins og Villiers, Matchless, BSA, AJS, Norton og Triumph, mislengi þó.

Árið 1973 yfirtók Manganese Bronze bresku bílasmiðjuna Carbodies í Coventry sem frá árinu 1948 hafði byggt bresku leigubílana ofan á Austin sendibílagrindur, sem síðan nefndust Leyland og enn síðar British Leyland.

Árið 2007 lagðist öll framleiðsla Austin/Leyland/British Leyland undirvagnanna af en hjá Manganese Bronze var uppsöfnuð mikil þekking og kunnátta og fjöldi hugmynda að bættum og betri leigubílum. Þá kom Geely frá Kína inn í dæmið og sameiginlegt dótturfélag var stofnað og hluti framleiðslunnar var flutt til þess í Shanghai. Síðan hefur verið bullandi tap á öllu saman. Árið 2009 var reynt að rétta hallann af með því að Geely keypti 20% hlut í breska móðurfélaginu en það dugði ekki. Tapið hélt áfram og Geely aftók í fyrra að setja meira fé í dæmið. Upp úr því hófst gjaldþrotameðferð sem lyktaði með því fyrir fáum dögum síðan, að Geely lagði fram 11 milljón pund. Með því stöðvaðist gjaldþrotsferlið og Geely eignaðist Manganese Bronze að fullu.

Sem stendur standa málin þannig að Geely kveðst ætla að halda áfram framleiðslunni á leigubílum í verksmiðju Manganese Bronze í Coventry í sama takti og verið hefur. Sl. ár voru byggðir þar rúmlega 1.500 leigubílar.