Gemsinn að útrýma GPS-tækjunum?

Árið 2007 var met söluár í Svíþjóð fyrir GPS leiðsögutæki í bíla. En nú er tekið að fjara undan leiðsögutækjunum. Salan dregst saman því að sífellt fleiri nota snjallsímann til að láta hann vísa sér akstursleiðirnar. Finnska símaframleiðslufyrirtækið Nokia hefur látið kanna venjur norrænna ökumanna og í ljós er komið að 22 prósent þeirra rúmlega þúsund Svía sem spurðir voru, kjósa að láta GPS tæki vísa sér leiðina. 35 prósent nota snjallsímann og afgangurinn notar vegakortin gömlu og góðu.

En í Danmörku og Noregi eru GPS leiðsögutækin ennþá talsvert vinsælli en meðal Svía. Þannig sögðust 45 prósent Norðmanna og 58 prósent Dana kjósa GPS tækin. Upplýsingafulltrúi Nokia í Skandinavíu segir við sænska Aftonbladet að vaxandi notkun snjallsíma í þessum tilgangi sé eðlileg þróun enda verði snjallsímarnir stöðugt öflugri og staðsetningarbúnaður þeirra betri. Fólk velji því það að eiga eitt tæki í stað tveggja áður. Þá sýni rannsóknin að þeir yngri reiði sig mun meira á símann í umferðinni en þeir eldri. Þannig noti 51 prósent 18-29 ára Svía símann sem leiðsögutæki í umferðinni.

Ennfremur sýnir það sig að íbúar höfuðborgarinnar Stokkhólms eru mun duglegri að nýta símtækið sem leiðsögutæki í umerðinni en en aðrir landsmenn eða 47 prósent. Íbúar Norður-Svíþjóðar nota hins vegar fæstir símann, eða aðeins 22 prósent. Þá sýnir það sig einnig að 10 prósent íbúa dreifbýlisins í vestanverðri Svíþjóð nota yfirhöfuð alls engin rafræn leiðsögutæki heldur einungis vegakort og skriflegar eða munnlegar leiðbeiningar.