General Motors veðjar á rafmagnsbíla

Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors tilkynnti í vikunni framtíðarstefnu fyrirtækisins í framleiðslu á rafmagnsbílum. Í áætlunum er gert ráð fyrir að árið 2023 verði hátt í tuttugu tegundir rafmagnsbílabifreiða framleiddir hjá fyrirtækinu.

Gert er ráð fyrir að tvær nýjar tegundir rafmagnsbíla verði kynntar strax til leiks á næsta ári. Chevrolet Ampera-e verður í þeim hópi og verður drægi bílsins hátt í 400 km. Stefnan er að smíða 25-30 þúsund bíla af þessari tegund á ári.

Forsvarsmenn General Motors veðja á rafmagnsbíla og segja þeim ekkert að vanbúnaði í þeim efnum og undirbúningsvinna búin að standa yfir í mörg ár.

,,Við getum ekki horft framhjá því að rafmagnsbílar eru framtíðin og við ætlum að verða þátttakendur í henni. Þetta kostar mikla vinnu og skipulagningu,“ segir Mark Reuss yfirmaður vöruþróunar hjá General Motors.

Salan á rafmagns- og tengil tvinnbílum hefur tekið mikinn kipp á þessu ári í Bandaríkjunum. Yfir 50 þúsund bílar af þessari tegund bíla seldust fyrstu fimm mánuði ársins og það er mikil aukning frá fyrra ári.