Gera ekki það sem þeir vilja að aðrir geri

Margir í hópi stjórnmála- og embættismanna, bæði hér á landi og í grannlöndunum, vilja takmarka akstur á negldum vetrardekkjum sem víðast  - og jafnvel rukka fyrir hann - vegna þess meinta skaða sem þessi dekk valda á götum og vegum, sem og svifryksmengun sem frá þeim stafi.  En margir þessara bannmanna aka sjálfir á negldum vetardekkjum. Það sýnir athugun sem gerð var hjá systurfélagi FÍB í Svíþjóð.

Í Svíþjóð ýmist mæla veghaldarar, sem eru sænska vegagerðin og sveitarfélög, sterklega með því að fólk velji fremur ónegld vetrardekk en negld. Og sums staðar eru naglar hreinlega bannaðir nema þá að greitt sé sérstaklega fyrir það að fá að aka á þeim. Það er því forvitnilegt að vita hvort þær stofnanir sem reka áróður gegn nagladekkjunum fari sjálfar eftir því sem þær vilja að aðrir geri. Blaðamenn hjá Motor, félagsblaði systurfélags FÍB í Svíþjóð athuguðu það og í ljós kom að samgöngustofnunin Transportstyrelsen sem hvatt hefur fólk til að velja ónegld dekk hefur 30 af þeim 45 bílum sem stofnunin rekur, á negldum vetrardekkjum. Sænska vegagerðin hefur nánast alla sína bíla á negldum dekkjum og 56 prósent lögreglubíla sem sumum hverjum er ætlað að framfylgja nagladekkjabanni þar sem það er í gildi, eru á negldum vetrardekkjum.

Verulegt vetrarríki er nú í Svíþjóð og um það bil 65% bíla í umferð eru á negldum vetrardekkjum. Motor segir engan vafa á því að í flestu vetrarfæri tryggir fólk best öryggi sitt með því að vera á góðum nagladekkjum. Góð vetrardekk sem hæfa aðstæðum hverju sinni geti komið í veg fyrir slys eða mildað umtalsvert afleiðingar þeirra. En Svíþjóð er stórt land, það teygir sig langt norður og vetraraðstæður eru ólíkar nyrst og syðst. Munurinn endurspeglast ágætlega í því að syðst í Svíþjóð er aðeins 8 prósent bíla á negldum vetrardekkjum en nyrst eru þeir 48 prósent.

En notkun negldra vetrardekkja hefur verið að dragast saman á undanförnum árum og er minni nú en lengstum áður (65% á negldum). Það finnst umferðarstofnun landsins gott mál út frá umhverfissjónarmiðum en út frá slysavarnasjónarmiðum er það ekki jafn gott. Í sérstakri rannsókn sem gerð var á rúmlega 250 dauðaslysum í vetrarumferðinni í Svíþjóð fyrir ekki svo löngu var m.a. eftirfarandi niðurstaða:

„Hvað varðar bíla án skrikvarnar (ESC) þá draga negld vetrardekk úr dauðaslysahættu um 42 prósent samanborið við ónegld. Þegar hálka er og bíllinn án ESC búnaðar er það beinlínis háskalegt að aka á ónegldum vetrardekkjum. Ef allir þeir sem í dag aka á negldum vetrardekkjum tækju sig til og skiptu yfir á ónegld dekk, má gera ráð fyrir að 15 mannslíf myndu tapast til viðbótar á hverju ári.“