Gert er ráð fyrir minni aukningu í umferðinni í ár en í fyrra

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu fyrsta mánuð ársins 2018 jókst um 4,6 prósent frá sama mánuði fyrir ári síðan. Þetta er minni aukning en þá. Spálíkan umferðardeildar Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir því að miðað við það verði mun minni aukning í umferðinni í ár en í fyrra  eða 3-4 prósent. Það er í takt við hagvaxtarspár en mikil fylgni er á milli umferðar á svæðinu og hagvaxtarins eftir því sem fram kemur úr tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 4,6% milli janúarmánaða 2017 og 2018, ef marka má þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar.  Þetta er heldur minni aukning en varð á sama tíma á síðasta ári en svipuð og varð árið 2016.

Umferðin jókst um öll mælisnið en mest um mælisnið við Dalveg í Kópavogi. Umrætt mælisnið hefur vaxið mest, ár hvert, frá árinu 2012.

Í nýliðnum janúar var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum, eins og venja er fyrir höfuðborgarsvæðið.

Umferðin jókst alla vikudaga fyrir utan mánudaga þar sem varð 3,2% samdráttur, ef miðað er við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin á laugardögum eða um 7,3%. 

Að loknum janúar gerir spálíkan umferðardeildar ráð fyrir að umferðin á höfuðborgarsvæðinu vaxi mun minna í ár en undan farin þrjú ár eða 3 – 4%. Þetta styðja núgildandi hagvaxtarspár, en eins og oft hefur verið bent á er náið samband á milli þessara tveggja breytna (96% frá 2005 til-2017)