Getur vanræksla vegna viðhaldsleysis skapað skaðabótaábyrgð?

Núverandi ástand vega víða um land vekur upp spurningar um ábyrgð veghaldara.  Fram hefur komið í viðtölum við fulltrúa vegahaldara, hjá Vegagerðinni og sveitarfélögum, að slæmt tíðafar og skortur á viðhaldi sé megin orsök óvenju slæms ástands vega.  Á höfuðborgarsvæðinu eru víða djúpar holur og margir bíleigendur hafa orðið fyrir tjóni og einnig má rekja önnur óhöpp og eignatjón í umferðinni til slæms ástands vega.  Fram kom á Mbl.is 16. febrúar sl. að Ögmundur Jónason, þá innanríkisráðherra, sagði á Alþingi fyrir þremur árum að:  ,,Með minnkandi fjárveitingum hefur verið dregið úr endurbótum og styrkingum á vegakerfinu og reynt að nota ódýrari aðgerðir við viðhald slitlaga, með því að setja bætur og fylla í hjólför á verstu stöðunum í stað þess að leggja nýjar yfirlagnir. Á fáum árum verður vegakerfið með þessu móti ósléttara og ójafnara, sem dregur úr umferðaröryggi.“

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um þessi mál að undanförnu og í gær kom fram að Sjóvá hefur tekið við 61 tjónamáli frá áramótum vegna holuaksturs á stofnbrautum Vegagerðarinnar og í akstri innan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.  Þessi sveitarfélög og Vegagerðin eru með ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá.  Í Morgunblaðinu hefur einnig komið fram að mikið annríki er hjá hjólbarðaverkstæðum og sala á gormum og dempurum hefur tekið verulegan kipp frá áramótum.

Margir bíleigendur hafa leitað til FÍB til að kanna réttarstöðu sína vegna tjóna sem tengjast ástandi vega.  Í gær sinnti FÍB Aðstoð fimm útköllum vegna dekkjaskipta þar sem ökumenn höfðu ekið í holur í götum.  Þessi dekkjaskipti voru á Sæbraut, Snorrabraut, Kringlumýrarbraut og í Ártúnsbrekku í Reykjavík og við Tjarnarból á Seltjarnarnesi.

Í 43. grein vegalaga (80/2007) sem fjallar er um viðhald vega og vegaskemmdir segir:

Veghaldari ber ábyrgð á því að vegi, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer.

Veghaldari skal svo fljótt sem við verður komið eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi, sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram og skulu merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.

Ráðherra getur með reglugerð sett nánari kröfur um viðhald vega.

Í 56. grein vegalaga er fjallað um bótaábyrgð veghaldara.

Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.

Í skýringum með 56. greininni í frumvarpinu þegar vegalögin voru til umræðu á Alþingi 2007 þá sagði m.a.:

Lagt er til að ábyrgð veghaldara verði sú sama hvort sem um er að ræða Vegagerðina, sveitarfélag eða annan aðila.

Bótaábyrgð er samkvæmt ákvæðinu byggð á sama grundvelli og bótaskylda samkvæmt almennum bótareglum, þ.e. að gáleysi er huglægt skilyrði bótaskyldu. Hins vegar er gerð sú krafa að ökumaður hafi sýnt eðlilega varkárni við akstur umrætt sinn og er það skilyrði bótaskyldu veghaldara. Mikilvægt er með tilliti til varnaðaráhrifa bótareglunnar að gera ríkar kröfur til veghaldara jafnt sem ökumanna.

Þetta ákvæði ... leiðir … til þess að bótaskylda Vegagerðarinnar sem og annarra veghaldara verður ríkari …. Eðlilegt verður að telja að veghaldari beri ábyrgð á mistökum starfsmanna sinna óháð því hvort um einfalt eða stórkostlegt gáleysi sé að ræða. Er því lagt til að bótaábyrgð veghaldara verði ekki takmörkuð við að tjón verði rakið til stórkostlegs gáleysis starfsmanna … . Verður að telja að sjónarmið sem áður voru viðurkennd um að takmarka eigi ábyrgð aðila sem sinna opinberri þjónustu eigi ekki lengur hljómgrunn.

Í frétt í Mbl.is í gær kom fram í viðtali við Guðmund Magnússon, tryggingaráðgjafa hjá Sjóvá að tjónþolar fái ekki tjón bætt ef vegahaldara hafi ekki verið kunnugt um holu sem olli tjóni. Blaðamaður spyr Guðmund hvort sú staðreynd geti haft áhrif á bótaskyldu að hægt sé að töluverðu leyti að rekja núverandi ástand vega til sparnaðar á undanförnum árum. Guðmundur segist eiga erfitt með að sjá það.

FÍB telur ástæðu til að skoða það nánar hvort veghaldarar hafi með aðgerðarleysi og vanrækslu við viðhald skapað sér skaðabótaskyldu.  Ljóst er að pólitískar ákvarðanir um niðurskurð á fjármagni til nýbygginga og viðhalds vega hafa haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar.  Vegagerðin hefur ítrekað varað við neikvæðum áhrifum þessa sparnaðar og sama á við um vegaumsjónaraðila stærri sveitarfélaga.  Opinberir aðilar hafa verið þess full meðvitaðir að athafnaleysi til nokkurra ára hefur í för með sér alvarlegt niðurbrot vega. 

Slæmir vegir auka kostnað við viðgerðir og viðhald bíla landsmanna, jafnframt  aukast tafir og óþægindi. Samfélagslegur kostnaður er verulegur vegna niðurskurðar á fé til viðhalds og frestunar á uppbyggingu vega.  Of lágar greiðslur til vegamála kosta bíleigendur, fyrirtæki og samfélagið í heild verulega fjármuni.

FÍB stendur vörð um hagsmuni bifreiðaeigenda vegna tjóna sem reka má til athafnaleysis veghaldara.  FÍB telur ljóst að með tilkomu nýrra vegalaga árið 2007 var ætlun löggjafans að herða á ábyrgð veghaldara. Allt bendir þetta til þess að veghaldarar geti ekki vísvitandi kastað til höndum þegar kemur að skyldum þeirra til að tryggja öryggi á vegum og gott ástand vega. Sá fjöldi mála undanfarið sem tengist vanrækslu viðhalds gefur til kynna að til skaðabótaskyldu veghaldara hafi stofnast vegna athafnaleysis og vanrækslu víðs vegar um landið. Það er alvarlegt þegar pólitískar ákvarðanir skerða beinlínis öryggi borgaranna og baka þeim fjárhagstjón