Geymarnir áfram hindrun fyrir rafbílana

Mjög hátt verð á líþíumrafgeymum í rafbíla og óvissa um endingu er sá þröskuldur sem bílakaupendur eiga erfiðast með að yfirstíga. Ólíklegt þykir að verðið lækki nóg næsta áratuginn til þess að hreinir rafbílar verði  almenningseign, nema þ­ví aðeins að einhverskonar stökkbreyting verði í rafgeymatækninni. Þetta er meginniðurstaða nýrrar rannsóknar sem unnin var af Boston Consulting Group (BCG).

Rannsóknarskýrsluna sem  nefnist Rafgeymar í rafbíla: Úrlausnarefni, tækifæri og horfur til ársins 2020, er að finna sem PDF skjal hér. Skýrsluhöfunar telja að væntingar bílaframleiðenda um að koma framleiðslukostnaði geymanna allt niður í 250 dollara á hverja kílóWattstund séu ekki raunhæfar nema því aðeins að meiriháttar framför verði í rafgeyma-efnafræðinni sem geri mögulegt að búa til rafgeyma með miklu meiri orkugeymslurýmd en nú er mögulegt, en án þess þó að  efnis- og framleiðslukostnaður hækki. Þessi kostnaður er nú milli 1000 og 1200 dollarar á kílóWattstund.

Það eru því greinilega enn sem fyrr rafgeymarnir sem helst standa í vegi fyrir rafbílnum þrátt fyrir gríðarlegar framfarir í þeim efnum undanfarin ár. Því er talið lang líklegast að tvíorkubílar verði áfram einskonar millilending milli hreinna rafbíla og bíla með brunahreyfla. Skýrsluhöfundar komast að þessari niðurstöðu en telja þó að 26 prósent , eða um 14 milljón af þeim bílum sem seljast munu árið 2020 á helstu bílamörkuðum heimsins (í Kína, Japan, Bandaríkjunum og V. Evrópu) verði ýmist hreinir rafbílar eða tvíorkubílar.

Fyrir utan hið háa verð á rafgeymunum þá telja skýrsluhöfundar að það verði áfram rafbílunum til trafala að orkurýmd geymanna er ekki sambærileg við fullan bensíntak, það er að segja að þeir komast ekki jafn langt á rafhleðslunni og bensínbíllinn kemst á tanknum. Í öðru lagi er það hleðslutíminn, sem er mun lengri en sá tími sem tekur að fylla á tóman bensíntankinn. Í þriðja lagi eru það svo sjálfir innviðirnir – það vantar allar hleðslu- og rafgeymaskiptistöðvar ennþá. Allt ofantalið séu þær hindranir sem rafbíllinn þurfi að yfirstíga áður en hann getur talist jafngildur valkostur almennings við bensínbílinn.