Gísli ekur á vatni í Þýskalandi

Næstkomandi laugardagskvöl verður Gísli Gunnar Jónsson eitt aðalnúmerið í vinsælasta sjónvarpsskemmtiþætti Þýskalands, „Wetten dass."  Í þættinum ekur hann á torfærutrylllitæki sínu yfir manngert stöðuvatn og eins gott að bíllinn stöðvist ekki og Gísli nái landi, því að vatnið er um 80 metra djúpt.

Skemmtiþátturinn Wetten dass hefur verið á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar ZDF í nokkur ár og er sendur út í beinni útsendingu að viðstöddum fjölda gesta í sal. Í hverjum þætti eru tekin fyrir 5 mismunandi áhættuatriði og fá heiðursgestir þáttarins hverju sinni að veðja um hvort atriðin takist, eða mistakist.  Þátturinn „Wetten Dass" á laugardag verður sendur út frá Freiburg í Þýskalandi og hefst kl. 20:15 að staðartíma og Gísli ekur á vatninu í beinni útsendingu.

http://www.fib.is/myndir/Gisli-vatnsm.jpg

Gísli Gunnar Jónsson við vatnið í Freiburg.

Forsögu þátttöku Gísla í þessum þýska sjónvarpsþætti er að rekja til breska þáttarins Top Gear frá árinu 2005, þegar hann ók á Kleifarvatni með Richard Hammond sem farþega.  FÍB og LÍA tóku þátt í að undirbúa þann þátt. 

Áhuga erlendra sjónvarpsþáttagerðarmanna má rekja til þess er útsendingar af íslenskum akstursíþróttum, sér í lagi íslensku torfærunnar hófust hjá erlendum sjónvarpsstöðvum. Íslenska torfæran var mjög vinsælt sjónvarpsefni erlendis á árunum 1996 til 2001.

Stöðuvatnið sem Gísli mun reyna akstur yfir er sem fyrr segir manngert. Það er nánar til tekið vatnsfyllt náma skammt utan við Freiburg.  Þar sem útsendingin er að kvöldi til, verður svæðið flóðlýst og er uppsetning þess búnaðar í gangi núna.  Vatnið er allt að 80 metra djúpt og vegalengdin sem aka á er um 250 metrar. 

Bíll Gísla var sendur til Þýskalands fyrir 2 vikum og sjálfur fór hann utan í gærmorgun ásamt Sigurði Grímssyni, tengilið ZDF á Íslandi og vélvirkja.  Auk þeirra hafa Ólafur Guðmundsson varaformaður FÍB og Árni Kópsson kafari og torfæruökumaður komið að undirbúningi og öryggismálum. 25 manna þýsk björgunarsveit mun svo sjá um öryggismálin og hafa til taks báta, krana og kafara ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis. 

Þar sem sjónvarpsstöðin ZDF er meðal erlendra sjónvarpsstöðva sem nást í Fjölvarpinu og hjá Símanum geta þeir sem þar eru tengdir inn, séð þáttinn í beinni útsendingu. En þátturinn verður einnig sendur út á Internetinu á slóðinni http://www.zdf.de/ZDFmediathek/content/395848?inPopup=true