Gjaldahækkanir í Hvalfjarðargöng 1. febrúar

Veggjald í Hvalfjarðargöngum hækkar um tæp 13 prósent að meðaltali frá og með 1. febrúar. Hækkunin er vegna verðlagsþróunar og afkomu Spalar sl. tvö ár. Einstakar ferðir um göngin sem greiddar eru í gjaldskýlinu við gangamunnann kosta eftir hækkun kr. 900 en kosta nú 800 kr. Þeir sem fara að staðaldri og oft um göngin geta keypt áskrift að þeim og fengið rafeindalykil í bíla sína. Lesari við gangamunnann telur svo niður af inneign áskrifanda á lyklinum við hverja ferð. Áskrifandi sem keypt hefur 100 ferðir um göngin hefur undanfarið fengið hverja ferð fyrir kr. 230. Sú upphæð fer í kr. 259 eftir að hækkunin tekur gildi 1. febrúar. Umboðsmaður neytenda hefur gagnrýnt það að ferðainneign áskrifenda á rafeindalyklum mun minnka  þegar gjaldskrárhækkunin gengur í gildi.

En hvað þá með þriðju leiðina sem er sú að kaupa „farmiða?“ Þeir eru seldir í tíu miða blokkum sem kosta nú kr. 5200 en fara í kr 5800. Þannig kostar hver miði, sem er rauður að lit, nú 520 krónur en eftir hækkun verður verðið 580 krónur.

Fréttavefur FÍB spurði Gylfa Þórðarson framkvæmdastjóra Spalar, eignarhaldsfélags Hvalfjarðarganganna hvort til stæði að breyta um lit á miðunum í farmiðablokkunum og rukka þá sem framvísa rauðum miða í gjaldskýli ganganna eftir 1. febrúar um mismun á gamla og nýja verðinu. Gylfi sagði það af og frá. Munurinn á miðunum og rafeindalyklinum væri sá að áskrifendur gerðu samning um lykilinn sem tengdur væri tölvukerfi Spalar. Ef gjaldskrá breytist, þá breytist ferðainneign áskrifenda sjálfkrafa um leið – á hvorn veginn sem væri. Á þeim tíma sem Hvalfjarðargöngin hafa verið í notkun hefur veggjaldið hækkað aðeins einu sinni en lækkað fimm sinnum og inneign áskrifenda varð þar með verðmætari við hverja þessara fimm verðlækkana.

Enginn slíkur samningur sé gerðurþegar keypt er farmiðablokk. Hver miði úr henni gildi fyrir einni ferð um göngin. Gildi miðanna sé algerlega óháð því hvenær farmiðablokkin var keypt. Gjaldskrárbreytingar hafi þar engin áhrif og svo verði áfram.