Gjaldþrot Saab hefur áhrif á notaða Saab bíla

Eftir að Saab bílaframleiðandinn í Svíþjóð var lýstur gjaldþrota hefur endursöluverð Saab bíla farið lækkandi á Norðurlöndunum. Á bílasölum í Danmörku seljast Saab bílar nú hægar en áður og ekki fyrr en búið er að slá umtalsvert af verði. Að meðaltali er afslátturinn rúmlega 10,4 prósent af ásettu verði notaðra Saab bíla um þessar mundir. 

Á danskri leitarvél fyrir notaða bíla sem heitir autouncle.com taka menn saman upplýsingar um verðbreytingar á einstökum tegundum og gerðum bíla. Slíkar upplýsingar voru teknar saman um Saab í fyrstu viku ársins og bornar saman við verðin eins og þau voru fyrir gjaldþrotið sem átti sér stað skömmu fyrir jólin. Í ljós kom að búið er að lækka verðið á nánast öðrum hverjum Saab bíl sem leitarvélin finnur á dönskum bílasölum. Að meðaltali er afslátturinn rúm 10 prósent.

Það eru ekki síst nýlegir bílar sem enn eru undir verksmiðjuábyrgð sem lækka í verði. Verksmiðjuábyrgðin er að nafninu til ekki enn útrunnin, en er það þó í raun því að engar kröfur vegna bilana á ábyrgðartíma er hægt að sækja í þrotabú Saab. Ef bíll bilar á ábyrgðartíma geta eigendur einungis reynt að sækja á það söluumboð sem bíllin var keyptur hjá. Söluumboðið getur hins vegar ekki fengið sinn kostnað greiddan hjá þrotabúinu.

Framkvæmdastjóri leitarvélarinnar AutoUncle segir að greinilegt sé að markaðurinn hafi brugðist við gjaldþroti Saab Automobile. Verðlækkunin sé viðbrögð við óvissu um verksmiðjuábyrgð bílanna og varahluta- og viðgerðaþjónustu í framtíðinni.

En það undarlega er hins vegar að verðlækkunin á Saab bílunum virðist hafa smitast yfir á aðrar bílategundir í svipuðum verð- og gæðaflokki og Saab. Þegar um 54 prósent nýlegra Saab bíla höfðu verið lækkaðir í verði á bílasölunum fylgdu um 44 prósent Audi bíla í kjölfarið og lækkuðu svipað. Þar á eftir lækkuðu líka 43 prósent bíla af tegundunum Volvo, Honda og Skoda o.fl.

Audi hefur um langt skeið verið vinsæll bíll í Danmörku og fremur auðseljanlegur. Því kemur á óvart hversu endursöluverð tegundarinnar hefur lækkað, ekki síst í því ljósi að bílar af Audi gerðum staldra mun skemur við á bílasölunum áður en þeir seljast heldur en Saab bílar. Saab bílarnir eru orðnir með tregseljanlegri bílum í Danmörku. Þeir staldra við að meðaltali 71 dag á bílasölum áður en þeir seljast. Meðaltalið fyrir allar bílategundir er hins vegar 45 dagar.