Gluggað í IFS-skýrslu Steingríms J.

Matsskýrsla um greiðslugetu og forsendur sem lagðar hafa verið fram af hálfu þeirra sem hyggjast bora göngin undir Vaðlaheiði er nú aðgengileg að vef fjármálaráðuneytisins. Skýrslan var unnin af IFS Greiningu að beiðni Steingríms J. Sigfússonar fyrrverandi fjármálaráðherra og ber merki þess að vera unnin fyrir þingmann og ráðherra úr því kjördæmi sem göngin verða í og er mjög áfram um að vinna hefjist og hefur áður lýst því yfir að frekari úttektir á áætlunum séu óþarfar göngin verði sjálfbær og ríkissjóður muni ekki þurfa að leggja út krónu.

Allir hlutaðeigandi?

Milli jóla og nýárs sagði Steingrímur í fréttaviðtali að skýrslan væri væntanleg fljótlega, vinna við hana væri á lokametrunum og skýrslugerðarmenn búnir að ræða við alla hlutaðeigandi. Hið síðastnefnda hefur reynst rangt því aldrei var rætt við FÍB sem fyrst greindi frá því að undirbúningur framkvæmdanna væri ekki sem skyldi. FÍB er í þeim skilningi aðili að málinu. Ráðuneytið fékkst ekki til að gefa skýringar á því hversvegna félagið var hunsað, þegar FÍB leitaði eftir þeim.

FÍB benti á það fyrst allra að kostnaðar- og fjárhagsáætlanir vegna meintrar einkaframkvæmdar Vaðlaheiðarganga byggðu á óhóflegri bjartsýni og útilokað að þær stæðust. Skuldbinda ætti tóman ríkissjóðinn og allt benti til þess að þær skuldbindingar myndu falla á ríkið. Allt tal um fjárhagslega sjálfbærni verkefnisins væri hjóm eitt sem ekki stæðist miðað við gefnar forsendur gangamanna. Að þessari niðurstöðu kemst Pálmi Kristinsson verkfræðingur í óháðri, vandaðri og ítarlegri skýrslu sinni.

Efasemdir

En efasemdir sækja greinilega líka að höfundum IFS-skýrslunnar. Í gegn um loðið málfarið skín að reynt er að eftir megni að fá áætlanir gangamanna til að ganga upp með útreikningum á mismunandi „sviðsmyndum“ eins og það er nefnt og með Monte Carlo hermun. Það getur því vart talist traustvekjandi niðurstaða að rétt rúmar helmingslíkur (53 prósent) eru taldar á að verkefnið geti greitt upp  öll lán sín 2045.

IFS skýrslan virkar í það heila tekið ekki sannfærandi og fjarri því að hún núlli út niðurstöður skýrslu Pálma Kristinssonar. Hún ber merki þess að vera pantað plagg um forsendur sem skýrsluhöfundar eiga erfitt með að láta ganga upp. Þetta má t.d. sjá í kaflanum Samantekt og helstu niðurstöður. Þar segir um það sem kallað er „fjárhagsskipan:“

„ Fyrirliggjandi viðskiptaáætlun félagsins gengur upp ef forsendur hennar ganga eftir. Viðskiptaáætlunin er háð fjölmörgum áhættuþáttum sem geta þróast til betri og verri vegar. Þeir þættir eru stofnkostnaður, umferðarþróun og greiðsluvilji, rekstrar- og viðhaldskostnaður, vaxta- og endurfjármögnunaráhætta. “  

En ekki hvað?