GM í samkeppni við sjálfan sig

Svo virðist sem General Motors ætli í hörku samkeppni við sig sjálfan í Evrópu því að rafbíllinn Opel Ampera frá Þýskalandi fær nú fremur óvænta samkeppni á Evrópumarkaði frá bandaríska systurbílnum Chevrolet Volt sem í ofanálag verður ódýrari en Amperan.

Bið Evrópumanna eftir rafbíl sem ekki veldur fólki „drægisótta“ er senn á enda því að Opel Ampera kemur á almennan markað á síðasta fjórðungi ársins. (Drægisótta kalla menn þann hroll sem fólk fær við tilhugsunina um að verða strand vegna rafmagnsleysis einhversstaðar og einhversstaðar). Lítil hætta er á því í Opel Ampera/Chevrolet Volt því að rafstöð er í bílnum sem fer sjálfvirkt í gang þegar geymarnir nálgast það að verða tómir. Drægið á geymunum einum (16 kílówattstundir) er 40-80 kílómetrar. Rafstöðin kemur honum síðan rúma 500 kílómetra til viðbótar eða þar til bensínið á tanknum er þrotið. Drægisótti á Opel Ampera/Chevrolet Volt ætti því að vera ástæðulaus.

General Motors Europe hefur fyrir nokkru gefið út söluverð á Opel Ampera í Þýskalandi. Það verður 42.900 evrur að sköttum og skráningargjöldum meðtöldum eða um sjö milljónir króna. Verðið hér á landi gæti því orðið svipað eða jafnvel lægra  svo fremi sem bíllinn verður undanþeginn vörugjöldum svipað og raf- og metanbílar eru nú.

Sífellt meira úrval rafbíla er þessar vikurnar að líta dagsins ljós og fjölmargar gerðir þeirra væntanlegar á almennan markað þegar á þessu ári og því næsta. Það er því óneitanlega dálítið sérstakt að General Motors hafi nú ákveðið að markaðssetja ekki bara Opel Ampera í Evrópu heldur systurbílinn Chevrolet Volt einnig, sem er fyrir utan smávægilegan útlitsmun, sami bíllinn enda báðir skrúfaðir saman í Bandaríkjunum í sömu verksmiðjunni.

Í þessu ljósi er það ekki síður sérkennilegt að  GM ætli sér að selja sama bílinn undir tveimur nöfnum á Evrópumörkuðum og enn sérkennilegri er verðstefnan. GM hefur nefnilega gefið út verð fyrir Chevrolet Volt upp á 41.950 evrur sem gerir hann tæpum þúsund evrum ódýrari en Opel Ampera. Þar á ofan ætlar GM að veita átta ára eða 160 þúsund km ábyrgð á Chevrolet Volt sem gildir bæði fyrir sjálfan bílinn og rafhlöðusamstæðuna. Og loks kemur Chevrolet Volt á Evrópumarkað á svipuðum tíma og Opel Ampera, eða undir lok ársins.