GM innleiðir miðjuloftpúða

Að byggja bíla þannig að þeir veiti góða vörn gagnvart ákeyrslum frá hlið er eitt eitt erfiðasta úrlausnarefni bílaframleiðenda. Nú hafa hönnuðir og verkfræðingar hjá GM þróað öflugan hliðarloftpúða. Hér að neðan má sjá video hvernig hann virkar. 

Undanfarna tvo áratugi hafa mjög stórstígar framfarir orðið í öryggi fólksins í bílnum. Nýir bílar nútímans eru margfalt öruggari en áður, enda hafa framleiðendur lagt milljarða á milljarða ofan í það að búa til krumpusvæði sem verja fólksrými bílanna og draga úr árekstrarhögginu og auk þess annan öryggisbúnað bæði til að verja fólk ef slys á sér stað og til að forða slysum.

Sérstaklega vel hefur tekist til með krumpusvæði á framenda bílanna og á afturendanum einnig og með varnir gegn slysum á börnunum í bílnum. Þá hefur í seinni tíð verið vaxandi áhersla á slysavarnir fyrir fótgangandi sem verða fyrir bílnum.

En svo eru það hliðarárekstrarnir. Við varnir gagnvart þeim er erfiðara að fást því að illgerlegt er að koma við krumpusvæðum þar í líkingu við það sem framendar bíla gera mögulegt. Þá sitja ökumaður og farþegi ansi þétt saman og því hætta á að við harðan hliðarárekstur og veltur kastist annar á hinn og slasi, eins og myndbandið gefur vísbendingar um. Í þessháttar hamförum er einkum hætta á höfuð- og hálshnykksmeiðslum.

Hönnuðir og tæknimenn General Motors vilja nú að bregðast við þessari vá með því að setja loftpúða milli ökumanns og farþega sem springur út við árekstur eða veltu. Miðjupúðinn hindrar að ökumaður og farmsætisfarþegi skelli saman. Og sé enginn í farþegasætinu, ver púðinn ökumanninn betur fyrir hálshnykk og hann losnar síður úr öryggisbeltinu.

Þessir púðar eru þegar komnir í nokkra bandaríska GM bíla og frá 2013 verða þeir staðalbúnaður í Chevrolet Traverse, Buick Enclave og GMC Acadian. Segja má að ástæða sé til því að samkvæmt rannsóknum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA, létust 11 prósent þeirra sem fórust í umferðarslysum 2004-2009 í hliðarárekstrum. Þess er vænst að umræddir loftpúðar muni draga talsvert úr þessari hættu. Hann muni einnig draga úr hættu á því að fólk losni úr öryggisbeltinu í hliðarárekstrum og veltum.

Hjá NHTSA og öðrum þeim sem láta sig umferðaröryggismál varða er það stöðugt áhyggjuefni hversu margir Bandaríkjamenn vilja ekki nota öryggisbeltin. Af þeim sökum þykir dánartíðni í umferðarslysum í Bandaríkjunum vera óeðlilega há og einna hæst meðal þeirra sem dags daglega aka í jeppum og pallbílum. Þessu gera menn sér ágætlega grein fyrir hjá GM og einmitt þess vegna velja þeir að byrja á að innleiða nýja búnaðinn í – hvað annað en einmitt jeppa og pallbíla.