GM-rafbíllinn Bolt í fjöldaframleiðslu

Einungis er nú eitt og hálft ár liðið frá því frumgerð þessa nýja rafbíls var sýnd á bílasýningunni í Detroit og þar til nú að bíllinn er tilbúinn til fjöldaframleiðslu. Þetta stuttur „meðgöngutími“ bíls þykir talsvert óvanalegur í bílaframleiðslugeiranum. Bolt verður einnig óvenju langdrægur miðað við aðra rafbíla t.d. hina nýju kynslóð Nissan Leaf og VW e-Golf sem báðir eru með 30 kWst. rafhlöðusamstæðu. Drægi Bolt á rafhleðslunni er sagt verða í kring um 320 km. Verðið verður þó svipað og á hinum fyrrnefndu eða um 3,6-4 millj. ísl kr. Bíllinn verður markaðssettur undir Bolt-nafninu í Bandaríkjunum en í Evrópu mun hann nefnast Opel Ampera-e.

Chevrolet Bolt/Opel Ampera-e er venjulega flokkaður með Nissan Leaf og VW Golf sem segja má að sé nærri lagi hvað verðið varðar. Hvað stærð og rými varðar er Bolt/Ampera þó nær Tesla S ef marka má upplýsingar GM um bílinn. Lengd hans milli öxla er 3,12 m  sem er nærri því hálfum metra lengra en hjá Leaf og Golf. Rafhlöðurnar eru 60 kWst. og þær og allur drifbúnaðurinn í bílnum er þróaður í samvinnu við kóreska raftæknirisann LG. Vélaraflið er 150 kW (204 hö).

Allir Bolt/Ampera bílarnir verða byggðir í hinni nýju verksmiðju GM; Orion Assembly Plant í Michigan. Hún er byggð með það fyrir augum að hún valdi sem minnstum umhverfisáhrifum. Meir en helmingur þeirrar orku sem verksmiðjan þarfnast er fengin úr metangasi frá nærliggjandi sorpeyðingarstöð. Afgangurinn kemur frá eigin sólarorkuveri. Verksmiðjan er þannig þegar orðin í áttunda sæti yfir stærstu iðjuver heims sem eingöngu nota endurnýjanlega orku.